Ósanngjart tap gegn ÍA
Tindastólsstúlkur mættu ÍA í dag, laugardaginn 13. júlí í blíðskaparveðri og voru aðstæður til fótbolta mjög góðar og leikur Tindastóls fyrstu mínúturnar í samræmi við það. Mikið var um mörk í leiknum og endaði leikurinn 4 - 5 fyrir ÍA stúlkum.
Á fyrstu mínútum leiksins slapp Leslie í gegn en lét markmann ÍA verja frá sér. Á 10. mínútu leiksins skorar ÍA gegn gangi leiksins en boltinn berst út fyrir teig Tindastóls og ÍA leikmaður á þrumuskot í bláhornið og kom markmaður Tindastóls, Bryndís Rut, engum vörnum við. Strax eftir þetta sleppur Leslie aftur í gegn en skaut aftur í markvörð ÍA. Strax í næstu sókn skoruðu ÍA stúlkur annað mark eftir baráttu í teig Tindastóls. Eftir annað mark ÍA virtist koma óöryggi í leikmenn Tindastóls og ÍA sterkari næstu mínútur eftir markið. En á 25. mínútu breyttist þetta aftur, þá sparkar Bryndís Rut langt fram og Leslie framlengir á Laufey, en varnarmaður ÍA komst á milli en átti slæma sendingu aftur á markvörð sinn sem sendir boltann beint á Laufey sem þakkaði pent fyrir sig og vippaði boltanum glæsilega yfir markvörðinn og í netið. Það sem eftir lifði fyrri hálfleikinn var Tindastóll betri aðilinn í leiknum og á 35. mínútur jafnaði Carolyn metin eftir að hafa fengið boltann á miðjum vallarhelmingi ÍA, leikið á nokkra varnarmenn og lagði boltann laglega framhjá markmanninum. Tveimur mínútum síðar fær Tindastóll aukaspyrnu sem Carolyn setur inní teig og varnarmaður ÍA skallar boltann stórglæsilega í eigið mark og Tindastóll kominn yfir 3-2. Stuttu seinna átti Tindastóll góða sókn upp hægri kantinn sem endaði með fyrirgjöf á Leslie sem skaut boltanum í stöng, góður fyrrihálfleikur hjá Tindastóli og voru Tindastólsstúlkur betri aðilinn í fyrri hálfleik.
Það var ekki sami kraftur í Tindastólsliðinu á fyrstu mínútum seinni hálfleiks og kom það í bakið á þeim því á 54 mínútu komast ÍA stúlkur upp hægri kantinn og eiga fyrirgjöf sem á viðkomu í Sunnu og í netið og staðan orðin jöfn. Á 60 mínútu kemur sending til baka á Bryndísi Rut sem missir boltann of langt frá sér og í fætur ÍA leikmanns en nær að renna sér í boltann á undan ÍA leikmanninum, sem hleypur á Bryndísi og fellur við. Dæmd var vítaspyrna og Bryndís fékk rautt spjald. ÍA skoraði úr vítaspyrnunni og mínútu síðar vinna þær boltann á vinstri vallarhelmingi Tindastóls og eiga frábært skot í bláhornið, óverjandi fyrir Kristínu sem komin var í mark Tindastóls. Eftir þetta jafnaðist leikurinn og voru Tindastólsstúlkur líklegri til að skora og náðu að setja eitt mark á 70. mínútu eftir laglegt samspil Leslie og Carolyn sem endaði með góðu skoti frá Carolyn sem small í netinu.
Síðustu tuttugu mínúturnar einkenndust af mikilli baráttu hjá Tindastól og hafði Kristín í markinu ekkert að gera, en grátlegt að ná ekki að jafna á síðustu mínútunum þar sem Tindastóll var meira ógnandi og ekki að sjá að þær væru 10 á móti 11 síðustu 30 mínútunar.
Næsti leikur hjá stelpunum er á laugardaginn 20. júlí nk. á móti Víkingi Ólafsvík.
.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.