Örvæntingarfull undirboð að sliga verktaka

Örvæntingafullir jarðvinnuverktakar  á Íslandi virðast þessa dagana bjóða allt niður í 45 - 50% af kostnaðaráætlunum verka í von um að hreppa hnossið.

 

 

Feykir.is sagði frá því í gær að Víðmelsbræður í Skagafirði hefðu nú fyrir helgi sagt upp 5 af 7 starfsmönnum sínum. Að sögn Jóns Árnasonar hjá Víðmelsbræðrum er gríðarlega erfitt að sækja verkefni í dag sökum þess að þau séu að fara á um það bil 50% af kostnaðarverði og slíkt sé ekki hægt að keppa við samhliða því að halda áfram rekstri.

 

Sömu sögu segja aðrir verktakar en mbl.is greinir frá verktaka á Suðurnesjum sem greip til þess að segja öllum 50 starfsmönnum sínum upp. Sagðist verktakinn ekki treysta sér til þess að reka fyrirtæki sitt í umhverfi þar sem flest verk eru unnin fyrir um 50% af kostnaðaráætlun.

 

Vinnureglur Vegagerðar ríkisins eru þær að verktaki sem býður í verk verður að sýna fram á að velta síðustu þriggja ára á undan sé í það minnsta helmingur upphæðar verksins. Verktaki verði að hafa staðið skil á opinberum gjöldum auk þess sem verkstaða og almenn ábyrgð verktaka er skoðuð.

Hafi verktaki staðið í skilum og rekið fyrirtæki sitt vel síðustu þrjú ár er því ekki gerð athugasemd við að tilboð í verk nemi ekki nema tæplega helming kostnaðar við verkið.

 Þá er farið fram á verktryggingu en bankar eru í auknum mæli farnir að fara fram á að verkkaupi skilji eftir hluta greiðslu til verktaka sem tryggingu bankans. Þetta þýðir þá í raun að verktaki er farin að vinna verkið fyrir helmingi lægra verð en það er í raun talið kosta auk þess að hluta af greiðslu hans er haldið eftir þar til verkinu lýkur.

 

Verktaki sem Feykir.is ræddi við sagði að ljóst væri að verktakar sem tækju að sér verk á þessum undirkjörum gætu ekki staðið í skilum og þá yrðu það oftar en ekki undirverktakar, birgjar og fleiru sem sætu eftir með sárt ennið og fengju skuld sína ekki greidda. Undirboð sem þessu væru einfaldlega upphafði á endinum.

 

-Það ástand sem einkennir markaðinn í dag er í fyrsta, öðru og þriðja lagi verkefnaskortur sem aftur leiðir að sér þessi skelfilegu undirboð sem eru engum til gagns eða góðs, segir Árni Jóhannsson, forstöðumaður mannvirkjasviðs Samtaka Iðnaðarins. Aðspurður um hvort samtökin muni beita sér í þessu ástandi segir Árni að búið sé að þrýsta verulega á hið opinbera um að setja fleiri verk í útboð. -Stærri sveitarfélög og ríkið hafa eiginlega verið með útboðsbann síðustu mánuði sem hefur komið illa niður á þessari stóru grein. Hér eru mörg störf í húfi, segir Árni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir