Öruggur sigur Tindastóls í Garðabænum
Lið Tindastóls mætti unglingaflokki Stjörnunnar í 1. deild kvenna í Umhyggjuhöllinni í Garðabæ í dag. Hlutskipti liðanna er ólíkt þar sem Stjörnustúlkur hafa unnið einn leik í vetur en lið Tindastóls í toppbaráttu eftir að hafa unnið sjö leiki í röð. Þær héldu uppteknum hætti í dag og unnu öruggan sigur, 59-100, og sitja nú toppi 1. deildar með 14 stig, líkt og KR og Ármann, en eiga leik til góða.
Stólastúlkur náðu undirtökunum strax í byrjun og leiddu frá fyrstu körfu til hinnar síðustu. Staðan var 4-14 eftir fimm mínútna leik en 13-28 að loknum fyrsta leikhluta. Í hálfleik var munurinn 22 stig, 34-56, og ljóst í hvað stefndi.
Allir 22 leikmenn á skýrslu fengu að stíga dansinn og í liði Tindastóls var aðeins ein stúlka sem spilaði minna en tíu mínútur. Ifunanya Okoro var atkvæðamest í lið Tindastóls með 23 stig, níu fráköst og sex stoðsendingar, Andriana Kasapi gerði 19 stig, Brynja Líf 18, Inga Sigríður 13 og Emese Vida var með 11 stig og tíu fráköst.
Næsti leikur Tindastóls er toppslagur gegn liði Ármanns í Laugardalshöllinni þann 14. janúar næstkomandi. Það væri ekki vitlaust fyrir stuðningsmenn Tindastóls að kíkja á þann leik.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.