Öruggur sigur Grindvíkinga

Kárason og Daanish elduðu grátt silfur í Síkinu.

Tindastóll spilaði við Grindavík í Síkinu í kvöld og var þetta fyrsti leikur liðanna í Iceland Express deildinni. Það var vitað að það yrði við ramman reip að draga hjá heimamönnum gegn Grindvíkingum sem margir telja vera sterkasta liðið nú við upphaf móts. Leikar fóru þannig að gestirnir sigruðu með 31 stigs mun, 64-95, en kanalausir Stólar þurfa ekki að skammast sín fyrir frammistöðuna.

Grindvíkingar fóru vel af stað, komust í 7-1 og stuðningsmönnum Stólanna leist ekki á blikuna. Leikmenn Tindastóls voru þó á tánum og spiluðu flotta vörn það sem eftir lifði fyrsta leikhluta og náðu yfirhöndinni með góðum leik. Að loknum fyrsta leikhluta var staðan 18-17. Gestirnir hófu að pressa af kappi í öðrum leikhluta og unnu boltann nokkrum sinnum en þrátt fyrir það gekk Stólunum þokkalega að losa um pressuna. Þá hins vegar voru menn að flýta sér um of í sóknarleiknum og skotin geiguðu. Grindvíkingar voru reyndar enn í vandræðum með vörn Tindastóls en náðu að búa til ágætt forskot þar sem pressuvörnin skilaði nokkrum þægilegum körfum. Staðan í hálfleik 28-40.

Í síðari hálfleik hélst hraðinn enn of mikill og sóknir Tindastóls voru stuttar í þriðja leikhluta. Menn vart komnir fram yfir miðju þegar dritað var á körfuna en skotin ekki nógu góð. Grindvíkingar juku forystuna jafnt og þétt og undir lok þriðja leikhluta var staðan orðin 42-65 og ljóst að Stólarnir voru ekki að fara vinna leikinn. Grindvíkingar gerðu sitt besta til að auka muninn í fjórða leikhluta. Helgi Freyr fékk fljótlega fimmtu villuna í fjórðungnum en sigur Grindvíkinga öruggur og liðin skiptu yngri og óreyndari leikmönnum inn þegar líða tók á. Lokatölur 64-95.

Sem fyrr segir spiluðu Stólarnir lengst af ágæta vörn í leiknum en það eru ansi mörg vopn í búri Grindvíkinga; Brenton, Páll Axel og Daanish voru drjúgir og þá virðist sem nær allir leikmenn Grindvíkinga hafi fæðst með sérstaka hæfileika til að gera 3ja stiga körfur þegar þeim dettur það í hug. Í liði Tindastóls var Svabbi að venju atkvæðamestur en kappinn gerði 20 stig og tók 10 fráköst. Michael Giovacchini stóð sig með ágætum þó hann væri feiminn við að skjóta framan af leik, hann gerði 10 stig og þrátt fyrir litla hæð kippti hann niður 11 fráköstum. 3ja stiga hittni Tindastóls var lygilega slök en aðeins 3 af 22 skotum fóru niður á meðan að 11 af 35 skotum Grindvíkinga rötuðu rétta leið.

Tindastólsmenn eiga enn eftir að skaffa sér kana en eins og áður hefur verið greint frá á Feyki þá var Ricky karlinn Henderson sem átti að mæta til leiks nú í vikunni var ekki allur þar sem hann var (ó)séður en hann hafði komist í kast við lögin ytra og á ekki heimangegnt. Verið er að leyta að nýjum kana og vonandi skilar ferskur kani sér fyrr en síðar í Síkið. Leikmenn Tindastóls eiga mikið inni og óþarfi að örvænta í byrjun móts þó vitað sé að byrjunin á mótinu verði liðinu sennilega erfið.

Stig Tindastóls: Svabbi 20, Rikki 11, Giovacchini 10, Helgi Margeirs 8, Helgi Viggós 5, Sveinbjörn 4, Axel 3, Hreinsi 2 og Einar 1.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir