Opið bréf til Sigmundar Ernis Rúnarssonar í tilefni skrifa á heimasíðu hans þann 6. janúar 2009.

Opið bréf til Sigmundar Ernis Rúnarssonar í tilefni skrifa á heimasíðu hans þann 6. janúar 2009.

Komdu sæll Sigmundur.

Á meðan þú varst fréttamaður hafði ég gaman af því að hlusta á þig. Sem þingmann er ég hreinlega ekki viss.

Tilvitunun frá heimasíðu Sigmundar Ernir Rúnarssonar þann 06.01.10, "Forsetaræði":

"Forseti Íslands gæti komist í sögubækurnar fyrir annaðtveggja; að fella fyrstu hreinu vinstri stjórnina í sögu landsins, eða vera sá forseti í sögu lýðveldisins sem fyrstur þarf að segja af sér embætti.

Vitaskuld förum við í þjóðaratkvæðagreiðslu að ráði forsetans. Verði Icesave-lögin samþykkt í henni, er forsetanum varla sætt lengur. Verði Icesave-lögunum hafnað, er ríkisstjórninni varla sætt lengur.

Æ fleiri viðbrögð fólks allt í kringum mig telja mér trú um að forsetinn sé tæpari en stjórnin. Nú er enda spurt í lokin; endurreisn eða einangrun? Því falli samningurinn eru Bretar og Hollendingar með öll tromp á hendi … og sér svo sem ekki fyrir endann á þeim afleik …

Álit mitt á forsetanum er annars þetta: Hann tók eigin hag fram yfir þjóðarhag þegar hann neitaði lögunum staðfestingar. Hugvísindamaðurinn sjálfur beitti veikum rökum máli sínu til stuðnings; óvísindalegri könnun sem byggði á því ólíka mati fólks að borga ekkert, helst ekkert, eitthvað, eða ekki eins mikið - og svo var hitt og kannski lyginni líkara; á samtölum og áskorunum stjórnarliða sem enginn þeirra kannast við. Nákvæmlega enginn. Því máli fylgja fréttastofur vitaskuld eftir.

Fyndnast er þetta: Forsetinn hefur tekið upp hanska helstu kapítalista heims, sem suður í Kaliforníu kjósa um allar fjárreiður hins opinbera, þar með taldar skattahækkanir, enda er ríkið a tarna gjaldþrota fyrir vikið. Engum nálægum þjóðum dettur til hugar að setja íþyngjandi byrðar í þjóðaratkvæði - og það vita hugsvísindamenn.

En gott og vel … við skulum samt kjósa … eftir röskan mánuð - og þá mun þjóðin vita hvað er í húfi.

Í millitíðinni myndi ég halda að forsetinn væri búinn að fara í lúxusferð til Indlands og skilja þjóðina eftir heima í ruslflokki …

Það er eftir öðru …

-SER."

Hér er hart að orði kveðið og heldur fátt um góð rök. Virðist sem allt málið verði tilfinningum að ofurefli.

Forseti Lýðveldisins er kosinn til að gæta hagsmuna þjóðarinnar í einu og öllu. Það á líka við um milliríkjamál sem og önnur.

Það er hin stærsta skylda hvers embættismanns að fylgja samvisku sinni. Fylgt samvisku sinni og uppfylla þeirri ábyrgð sem felst í embættinu. Hafi Forsetinn í þessu tilfelli fylgt samvisku sinni þá hefur hann unnið góðan gjörning. Gjörning sem þegnar samfélagsins ættu að bera virðingu fyrir, þó svo allir séu ekki sammála hans rökstuðningi. Það eru ekki allir sem bera þann kjark að standa fyrir sínu máli tæpitungulaust, þó svo að það geti valdið óþægindum.

Þó svo einstaklingar, samtök eða ríkisstjórn séu ósammála Forsetans gerðum og dómgreind, þá ætti að fylgja ákveðin virðing milli einstklinga í þjóðfélaginu. Virðing fyrir Lýðveldinu, virðing fyrir embættinu, virðing manna á milli. Það hefur löngum verið sagt að á erfiðum tímum sýni fólk hvert er þeirra innra eðli. Því ætti sérhver sá sem tjáir sig opinberlega að gæta orða sinna vandlega. Og sérstaklega ættu þingmenn að gæta orða sinna og gerða.

Að lokum vil ég svara fullyrðingum sem þú settir fram í morgunþætti Bylgjunnar þann 6. januar 2010. Þar sem talað var um að flestar þjóðir Evrópu vissu vel um hvað Icesave málið snérist. Að sjálfsögðu get ég bara fullyrt um það land sem ég bý í og það er Noregur. Þar fullyrði ég að Normenn vita yfir höfuð ekki um hvað Icesave málið snýst. Fréttafluttningur af málinu er lítill, bæði í sjónvarpi og dagblöðum. Og þær fréttir sem koma fjalla um kreppu og slæmt ástand á Íslandi og ekki um Icesave málið. Því máli hefur ekki verið gert skil, að minsta kosti ekki hér í Noregi, sem þó er góður nágranni Íslands.

Kveðja
Hannes Bjarnason
Mofaret 7
2072 Dal
Norge

Höfundur fæddur og uppalinn í Eyhildarholti, Skagafirði en hefur búið seinustu 12 ár í Noregi og hefur starfað þar sem landfærðingur og seinast verkefnastjóri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir