ÓB-mótið komið á fullt og tónleikar í Aðalgötu í kvöld
Nú um helgina fer fram á Sauðárkróki árlegt ÓB-mót í fótbolta á vegum knattspyrnudeildar Tindastóls. Þar koma saman stelpur í 6. flokki hvaðanæva að af landinu og eru um 116 lið skráð til keppni og eru þvi rúmlega 700 keppendur sem hlaupa nú sér til hita í norðanátt og bleytu. Reyndar er veðrið skaplegra núna því það hefur stytt upp og samkvæmt upplýsingum Feykis er stemningin á vellinum ágæt miðað við aðstæður.
Kvöldvaka er fastur liður á ÓB-mótinu. Í fyrra var bryddað upp á þeirri nýjung að færa kvöldvökuna úr Grænuklaufinni og út í Aðalgötu. Sá leikur verður endurtekinn í kvöld sem þýðir að Aðalgatan er að sjálfsögðu lokuð í dag þar sem verið er að gera allt klárt áður en gleðipinnarnir í Danssveit Dósa og VÆB stíga á svið.
Að sjálfsögðu er öllum velkomið að njóta skemmtunarinnar með fótboltastelpunum og nú er bara að muna að klæða sig eftir aðstæðum. Það verður ekki hlýtt í kvöld en heldur dregur úr norðanáttinni og vonandi ágætt skjól af sviðinu.
Það má reikna með hægum vindi í nótt og um fimm stiga hita en það hlýnar síðan með morgninum og mögulega ná einhverjir sólargeislar í gegn um hádegisbil.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.