Nýtt pípuorgel vígt í Blönduóskirkju í gær
Í gær var nýja pípuorgelið í Blönduóskirkju vígt við fjölmenni en kirkjan var nær fullsetin. Smíði orgelsins hófst í september 2007 og er mikil listasmíði. Orgelið ber ópustöluna 30 frá orgelverkstæði Björgvins Tómassonar á Stokkseyri. Smíði hljóðfærisins önnuðust Björgvin Tómasson, Egill Björgvinsson, Guðmundur Gestur Þórisson, Jóhann Hallur Jónsson og Júlíus Óttar Björgvinsson.
Orgelhúsið er smíðað úr evrópskri eik og einnig allar trépípur þess, 72 að tölu. Málmpípur eru smíðaðar úr hinum ýmsu tin- og blýblöndum en samtals hefur hljóðfærið 1.245 pípur. Hljóðfærið hefur mekanísk nótnaborðstengsl og rafstýrð raddtengsl með 192 forvalsmöguleikum. Hljóðfærið hefur 21 rödd sem skiptast á tvö hljómborð og pedal.
Sr. Jón A. Baldvinsson, biskup á Hólum vígði orgelið og predikaði, Sr. Sveinbjörn R. Einarsson þjónaði fyrir altari, kór Blönduósskirkju söng, Þórhallur Barðason söng einsöng og þeir Einar Bjarni og Höskuldur Sveinn Björnssynir og Skarphéðinn H. Einarsson spiluðu á málmblásturshljóðfæri ásamt Sólveigu S. Einarsdóttur organista.
Að lokinni athöfninni var boðið til kaffisamsætis í Félagsheimilinu á Blönduósi í boði sóknarnefndar en þar voru flutt nokkur ávörp og Þórhallur söng einsöng við undirleik Benedikts Blöndal.
Sjá fleiri myndir HÉR.
/Húni.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.