Nýtt og betra toppstykki á stromp Steinullar
Um mánaðamótin júlí ágúst var endurnýjuðum strompi komið fyrir við verksmiðju Steinullar á Eyrinni á Sauðárkróki. Strompurinn er nú tveimur metrum hærri en áður, nær því 42 metra hæð sem er dágott.
Nýr strompur kom reyndar ekki til af góðu því um átta metra stykki, fyrir ofan stagfestingar, brotnaði af honum í mars síðastliðnum og féll til jarðar. Enginn var á ferðinni þarna á þessum tíma og því enginn í hættu. Verksmiðjuhúsið slapp alveg en einingarnar féllu að hluta niður á innmötunarfæriband sem færir sand inn í verksmiðjuna og skemmdist það lítillega. Samkvæmt upplýsingum Feykis gerðist þetta utan dagvinnutíma og ekki var hætta á ferðum þar sem alla jafna er ekki mannskapur á svæðinu þar sem strompurinn kom niður. Ástæðan fyrir því að strompurinn brotnaði er tæring sem myndast hafði í efri hlutanum en strompurinn var settur upp 1985 og stóðst þá allar kröfur.
Að sögn Stefáns Loga Haraldssonar, framkvæmdastjóra Steinullar, var Umhverfisstofnun þegar upplýst um atburðinn og ekki var talið að hætta væri á neinni mengun á meðan beðið væri eftir endurnýjun á strompi. Stefán segir að enginn hafi getað átt von á því að strompurinn gæfi sig, enda byggður samkvæmt ítrustu burðarkröfum á sínum tíma og ekki hafi verið um neina vanrækslu að ræða – þetta hafi verið ófyrirsjáanlegur atburður.
Það var Slippurinn á Akureyri sem annaðist smíðina á nýja toppstykkinu og kom honum síðan fyrir með hjálp stóreflis kranabíls sem þeir hafa á sínum snærum. Kraninn þurfti að lyfta nýja strompinum á sinn stað og þurfti því að komast töluvert hærra en í 42 metra hæð.
„Eftir stendur að við erum með endurnýjaðan stromp, sem væntanlega endist gott betur en næstu 40 árin og stöndumst allar kröfur, umhverfis- og hönnunarlega séð,“ segir Stefán Logi að lokum.
- - - - - -
Myndirnar tóku Trausti Jóel og Óli Arnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.