Nýtt Íslandsmet hjá skagfirskum sundkappa
Ingibjörg Kristín Jónsdóttir sundkona setti í morgun nýtt Íslandsmet í 50 metra baksundi á heimsmeistaramótinu í 50 metra laug sem nú fer fram í Búdapest í Ungverjalandi. Synti hún vegalengdina á 28,53 sekúndum og varð í 26. sæti í undanrásum. Þar með bætti hún Íslandsmet Eyglóar Óskar Gústafsdóttur sem var 28,61 sekúnda. Ingibjörg komst þó ekki áfram í undanúrslit en til þess þurfti að synda á 28,22 sekúndum.
Ingibjörg Kristín, sem er 24 ára gömul, er Hofsósingur í báðar ættir, dóttir hjónanna Þórunnar Snorradóttur og Jóns Ágústs Björnssonar sem eru bæði fædd þar og uppalin. Ingibjörg fæddist og ólst upp á Ísafirði þar sem hún byrjaði að æfa sund og æfði síðar með Sundfélagi Hafnarfjarðar sem hún keppir fyrir í dag. Undanfarin fjögur ár hefur hún stundað nám í Arizona State University í Tempe í Bandaríkjunum, ásamt því að æfa og synda með háskólaliðinu þar. Þaðan útskrifaðist hún í vor með BA-gráðu í business communication. Hún tók þátt á Íslandsmótinu í 50 metra laug í byrjun apríl og náði lágmarki fyrir heimsmeistaramótið bæði í 50 metra skriðsundi og 50 metra baksundi.
Feykir óskar Ingibjörgu innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur og óskar henni góðs gengis í skriðsundinu sem hún keppir í á laugardaginn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.