Nýtt félag fékk nafnið Spes

grettistakEins og kunnugt er hefur verið starfræktur sveitamarkaður í sumar í húsnæði Grettistaks á Laugarbakka. Viðtökur voru vonum framar, og varlega áætlað komu um 6.000 gestir á markaðinn og leikvanginn við Grettisból.

Söluaðilar hafa verið um fimmtíu og í boði var handverk og heimaframleidd matvæli með áherslu á héraðið og sögu. Söluaðilar gengu um í stílfærðum víkingabúningum, og allt yfirbragð var frekar hrátt og náttúrutengd, með rekaviði, greinum, villigróðri, og Grettistökum og gærum til að hvílast á. Samstarfsaðilar markaðar voru Grettistak ses, Ferðamálafélag V-Hún, Verslunarminjasafnið Bardúsa og Laugarbakkinn sögusetur.

Mánudaginn 23. nóv. var haldinn stofnfundur áhugafólks um sögutengdan markað á Laugarbakka. Fundurinn fór fram í Grettisbóli sem tákn um það góða samstarf markaðsaðila og Grettistaks. Alls mættu 16 manns á stofnfundinn, og gengu 15 þeirra í félagið, auk þriggja í viðbót sem áttu ekki heimangengt þennan dag. Stofnfélagar komu víðar að úr sýslunni, frá Hrútafirði að Miðhópi og frá Vatnsnesi að Miðfirði.

Rætt var um lög félagsins.

Þar kemur m.a. fram:

Tilgangur félagsins er að efla handverk, listsköpun og svæðiseinkennandi matargerð með fornu ívafi.

Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að vinna náið með félögum og samtökum á sviði menningar, söguarfs og sögutengdrar ferðaþjónustu. Einnig með því að skipuleggja námskeið og standa fyrir fræðslu félagsmanna, sækja um styrki til að ná tilsettum tilgangi, og vera hvetjandi.

Nafn félagsins á sér rætur í Grettis sögu sterka.

Þar segir:

„Spes hét göfug garðshúsfreyja þar í staðnum, harðla rík og stórættuð. Sigurðr hét bóndi hennar.Hann var auðigr ok ættmæri en hon.“

Staðurinn þar sem hún Spes bjó er Mikligarður/Istanbul.

Nú er verið að undirbúa námskeið um handverk, og eru samstarfsaðilar auk Grettistaks, Verslunarminjasafn Bardúsa og Ferðamálafélag Vestur-Húnavatnssýslu. Mikill áhugi er fyrir handverksframleiðslu með fornri tækni. Námskeiðin verða tilkynnt innan skamms. Menningarráð Norðurlands vestra styrkir námskeiðin.

Eftir mjög góða reynslu af sveitarmarkaði s.l. sumar er stefnt að áframhaldandi starfsemi sumarið 2010. Með tilkomu Spesar verður auðveldara að samræma markaðinn og starfsemi í Grettisbóli og á svæðinu í kring.

Fréttatikynning

 palli@feykir.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir