Nýr framkvæmdastjóri eldvarnasviðs Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur ráðið nýjan framkvæmdastjóra eldvarnarsviðs sem staðsett verður á Sauðárkróki. Samkvæmt heimildum Feykis er það Þorgeir Óskar Margeirsson, byggingaverkfræðingur.

Þorgeir er með BSc. gráðu í byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands og framhaldsnám (Dipl. Ing.) í byggingarverkfræði frá Universitat Karlsruhe í Þýskalandi. Þorgeir er jafnframt menntaður húsasmíðameistari og hefur lokið löggildingu mannvirkjahönnuða.

Þorgeir mun hafa víðtæka reynslu á sviði stjórnunar og byggingaframkvæmda og hefur starfað í rúm 20 ár sem stjórnandi, verkefnastjóri, hönnunarstjóri og burðarþolshönnuður í umfangsmiklum byggingaframkvæmdum bæði á Íslandi, í Noregi, á Grænlandi, í Mali og Angola í Afríku. Hann hefur rekið eigin verkfræðistofu og verið meðeigandi í verktaka- og verkfræðifyrirtækjum á Íslandi og í Noregi s.s. J. Tufteland AS, Husanes AS, Multi og Togson. Auk þess hefur hann starfað fyrir Lahmeyer, Almennu verfræðistofuna og fleiri. Frá árinu 2017 hefur Þorgeir starfað sem verkefnastjóri framkvæmda hjá byggingarfélaginu Eykt.

Þorgeir starfaði með slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli á árunum 1999-2001. Þar fékk hann mikinn áhuga á öllu sem snýr að öryggismálum, eldvörnum og slökkvistarfi og hefur frá þeim tíma lagt sérstaka áherslu á þá þætti í námi sínu og störfum. Í framhaldsnáminu sínu í verkfræði lagði Þorgeir sérstaka áherslu á burðarþol, steypu og verkefnastjórnun og fjallaði lokaverkefni hans um áhrif elds á steinsteypu í jarðgöngum.

/SHV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir