Nýr diskur með Óskari frá Álftagerði

Framhlið hins nýja geisladisks sem trúlega á eftir að renna út eins og heitar lummar hér á Norðurlandi vestra og víðar.

Út er kominn nýr geisladiskur sem nefnist “Allt sem ég er”. Aðalsöngvarinn á diskinum er Óskar Pétursson en með honum syngja í nokkrum lögum, Björgvin Halldórsson, Guðrún Gunnarsdóttir og Guðjón Davíð Karlsson (Gói).

 
Þetta er fjórði diskurinn sem Óskar sendir frá sér sem sjálfstæður söngvari, en eins og alþjóð veit, þá er Óskar einn Álftagerðisbræðra.
Óskar hefur átt farsælan feril sem söngvari og sungið ýmist einn síns liðs eða ásamt bræðrum sínum á tónleikum og við ýmis tækifæri víðsvegar um allt land.

Tónlistin á diskinum er eftir Björgvin Þ. Valdimarsson, en um útsetningar sá Karl Olgeirsson. Björgvin og Óskar hafa starfað mikið saman og hefur Óskar ásamt bræðrum sínum sungið þó nokkuð af lögum Björgvins. Þar á meðal er lagið Undir Dalanna sól, sem Álftagerðisbræður gerðu vinsælt. Meðal textahöfunda má nefna Ragnar Inga Aðalsteinsson, Kristján Hreinsson, Davíð Stefánsson, Bjarna Stefán Konráðsson, Halldór Laxness, Guðmund Kr. Sigurðsson og Sigurbjörn Einarsson.
 
Lögin og ljóðin eru allt frá því að vera létt og leikandi uppí að vera alvarlegri íhugun um lífið og tilveruna.

Eins og fram kemur hér að ofan, þá syngja þrír gestasöngvarar með Óskari á diskinum. Fyrst skal nefna þau Björgvin Halldórsson og Guðrúnu Gunnarsdóttur, en þau eru bæði fyrir löngu orðnir landsþekktir söngvarar. Björgvin syngur titillag disksins ásamt Óskari sem
heitir “Allt sem ég er”. Í þessu lagi sýna þeir báðir sínar bestu hliðar. Guðrún syngur lagið “Sumarnótt” ásamt Óskari, sem er létt og leikandi lag þar sem hlýja radda þeirra fær að njóta sín til fulls. Að lokum er það leikarinn snjalli Guðjón Davíð Karlsson (Gói), sem fer á kostum í laginu Neyslu(kv)æði sem er við texta Ragnars Inga Aðalsteinssonar. Þetta er bráðskemmtilegur texti sem gerir góðlátlegt grín að neysluæði Íslendinga og öðrum nautnum sem því fylgja.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir