Nýjar námsmatsreglur við FNV

fjolbrautaskoliNýjar reglur um fyrirkomulag námsmats hafa tekið gildi í FNV.  Samkvæmti hinum nýju reglum er önninni skipt í tvo jafna hluta og skal námsmat (leiðsagnarmat, símat eða lokamat) fara fram í hvorum um sig. Einkunnir hvors hluta vega 50% af lokaeinkunn áfanga að teknu tilliti til verkefnavinnu.

 

Á heimasíðu skólans má sjá eftirfarandi texta:

 

Reglur um námsmat við FNV

1.Önninni er skipt í tvo jafna hluta og skal námsmat (leiðsagnarmat, símat eða lokamat) fara fram í hvorum um sig. Einkunnir hvors hluta vega 50% af lokaeinkunn áfanga að teknu tilliti til verkefnavinnu. Ákvæði um lágmarkseinkunn (45%) gildir um báða hluta (lotur) með undantekningu sbr. grein 4. Kennara er heimilt að ákveða mismunandi vægi verkefnavinnu í hvorum hluta fyrir sig.

 

2.Nemandi sem stenst ekki miðannarmat (undir 45%) tekur próf í annarlok sem nær til alls námsefnis annarinnar fyrir utan mat á verkefnavinnu, sem reiknast hluti heildareinkunnar.

 

3.Nemendum er skylt að undirgangast miðannarmat og mat í lok annar. Þó er gert ráð fyrir að utanskólanemendur taki einungis próf í annarlok sem nær til alls námsefnis áfangans, en þeim er þó heimilt að undirgangast miðannarmat. Þetta ákvæði á þó ekki við áfanga án áfangaprófs.

 

4.Undantekningar vegna ákvæða um lágmarkseinkunn:

 

a.Nemandi, sem stenst miðannarpróf sem vegur/vega 50% eða meira af miðannarmati, en fellur á slíku prófi/prófum í lok annar, þarf að endurtaka (sitja) báða hluta áfangans ef meðaltal einkunna miðannarprófs/-prófa og prófs/prófa í annarlok er lægra en 6 (60% án upphækkunar). Gildir þá einkunn úr prófi/prófum í seinni hluta sem lokaeinkunn.

b.Nemandi, sem stenst miðannarmat þar sem próf vegur/vega minna en 50%, en fellur á námsmati í lok annar, þarf að endurtaka (sitja) báða hluta áfangans ef meðaltal einkunna (próf, verkefni,ástundun o.s.frv.) úr miðannarmati og námsmati í annarlok er lægra en 6 (60% án upphækkunar). Gildir þá einkunn úr námsmati seinni hluta sem lokaeinkunn.

 

5.Í áföngum, án áfangaprófa, þarf nemandi að ná lágmarkseinkunn (45%) í áfanganum en ekki er unnt að taka heilt próf úr öllu námsefni áfangans.

 

6.Í áföngum með áfangaprófum á nemandi, sem ekki er ánægður með niðurstöðu miðannarmats, kost á því að undirgangast próf í annarlok sem nær til alls námsefnis annarinnar. Skal hann tilkynna skrifstofu skólans val sitt tveimur vikum fyrir upphaf prófa.

 

7.Engin sjúkrapróf eru haldin um miðbik annar. Geti nemandi ekki undirgengist miðannarpróf vegna veikinda, tekur hann próf í lok annar sem nær til alls námefnis annarinnar.

 

8.Hálft áfangapróf tekur 80 mínútur og heilt áfangapróf tekur 160 mínútur. Ekki er gert ráð fyrir að próftími verði framlengdur. Nemendum er ekki heimilt að yfirgefa prófstofu fyrr en að liðnum 45 mínútum.

 

9.Bannað er að hafa í prófi önnur hjálpartæki en þau sem leyfð. Óleyfileg eru m.a. farsími, mp-3 spilari o.s.frv. Verði nemandi uppvís að því að hafa slík tæki í prófi, er úrlausn hans ógild.

 

10.Þessar reglur skal kennari kynna nemendum sínum í upphafi annar og reglur um námsmat sem gilda um áfangann.

 
Skipulag þetta gildir frá upphafi vorannar árið 2010.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir