Nýir tímar - nýjar leiðir

Jónas Guðmundsson

Nú eru þeir tímar í samfélaginu að meta verður upp á nýtt fjölmargt af því sem til þessa hefur þótt sjálfsagt og ekki mátt hrófla við.  Þjóðin má ekki við sundurlyndi eða flokkadráttum og brýnt að heildarhagsmunir fái meira vægi en verið hefur.  Einn þeirra málaflokka sem þetta á hvað helst við eru samgöngur á landi þar sem hyllir undir margháttaðar breytingar. 

Auk þeirrar byltingar sem stefnir í með breyttum orkugjöfum fyrir bifreiðaflotann er líklegt að fjármögnun nýrra samgöngumannvirkja eigi eftir að breytast talsvert á næstunni og þá með auknum notendagjöldum hvort sem vegfarendum er það ljúft eða leitt.  Sér þessu þegar stað í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010.  Ákvörðunarvald um legu vega er hins vegar enn að mestu bundið við aðalskipulag hvers hinna 77 sveitarfélaga landsins án þess að hagsmunir heildarinnar fái komist að sem skyldi.  Hér sýnist þurfa breytt regluverk og verklag.  Bent hefur verið á möguleika á mjög  arðsamri vegstyttingu milli Norðausturlands og vesturhluta landsins um svonefnda Svínavatnsleið í Austur-Húnavatnssýslu sem stytti leið um 13 til 15 km eftir leiðavali  og aðra um og yfir 6 km í Skagafirði (sem hér er lagt til að verði nefnd Vindheimaleið).  Með nýjum vegum þessar leiðir mætti ná allt að 20 km styttingu milli landshlutanna, sem yrði afar arðsöm fyrir samfélagið og sparaði þeirri umferð sem þar færi um kostnað upp á einhver hundruð milljónir króna á  ári.  Þar sem þessar hugmyndir falla ekki að hugmyndum að aðalskipulagi einstakra sveitarfélaga, sem að mestu byggja á óbreyttri legu vega á svæðinu hefur þó lítið orðið úr framkvæmdum. 

Ekki skal gert lítið úr því að ýmsir kunna að hafa hagsmuni af óbreyttu fyrirkomulagi og hafa byggt upp þjónustu og starfsemi sem byggir á umferð sömu leið og verið hefur.  Ef vegir þessa leið verða fjármagnaðair með lánsfé en ekki almennu vegafé og innheimt verða veggjöld af þeim sem kjósa hinar styttri leiðir má hins vegar telja að mjög sé komið til móts við þessa aðila, en þá hafa vegfarendur jafnframt val um að flýta för gegn greiðslu gjalds eða fara hægar um og njóta þeirrar þjónustu sem í boði er á hverjum stað, sem ferðamenn á leið um landið munu án efa óspart gera.  Auk þess má gera ráð fyrir að umferð aukist umtalsvert með styttri leiðum sem einnig skapar tækifæri.

Þótt um sé að ræða mikilvægt málefni fyrir vegfarendur, farmflytjendur, íbúa Norðurlands, verktaka og raunar fjölda landsmanna er einnig brýnt að ákvörðun um breytingar sem þessar sé tekin í sem mestri sátt við íbúa og yfirvöld þeirra staða þar sem umferðarmynstur kann að breytast.  Til að svo geti orðið þurfa Norðlendingar og aðrir sem áhuga hafa að ræða málin frá sem flestum hliðum og af hreinskiptni.

Því boða Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Leið ehf. til opins fundar í Húnaveri í Langadal í Austur-Húnavatnssýslu laugardaginn 10. október nk. kl. 13:15 til þess að fjalla um þessi mál og leita leiða að sátt um þessar uppbyggilegu framkvæmdir.  Þess er vænst að allir þeir sem láta sig þessi mál varða, ekki síst íbúar þeirra sveitarfélaga þar sem breytingar kunna að verða, sæki fundinn og láti í ljós skoðanir sínar og hugmyndir um hvernig þessum málum verði best háttað. 

 

Jónas Guðmundsson,
formaður stjórnar Leiðar ehf.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir