Ný heimssýn - Stöndum saman um fullveldi Íslands
Í sumar samþykkti Alþingi, með naumum meirihluta, að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Nú er hafið langt og kostnaðarsamt umsóknarferli sem mun að öllum líkindum enda með þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem tekin verður afstaða til þess hvort Ísland gangi í ESB. Heimssýn eru þverpólitísk samtök sem taka afstöðu gegn aðild Íslands að ESB og telja hagsmunum Íslendinga best borgið utan sambandsins. Við, sem sitjum á Alþingi fyrir þrjá mismunandi stjórnmálaflokka, munum starfa náið með Heimssýn í þeirri baráttu sem framundan er.
Norska fordæmið
Norðmenn hafa tvisvar hafnað ESB aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu og eru í dag ein ríkasta þjóð í heimi. Um helgina sóttum við landsþing Norsku samtakanna Nei til EU sem fögnuðu því að 15 ár eru liðin frá því aðild Noregs að sambandinu var síðast hafnað. Nei til EU eru gríðarlega öflug samtök með um 30.000 félagsmenn og á þriðja hundrað þeirra sóttu landsþingið. Samtökin búa yfir yfirgripsmikilli þekkingu á Evrópumálum og alþjóðasamskiptum, sem átti sinn þátt í því að Norðmenn höfnuðu aðild að ESB og kusu að vera sjálfstæð rödd á alþjóðavettvangi. Landsfundarfulltrúar Nei til EU voru fullir eldmóðs og baráttuanda og lýstu yfir miklum vilja til að deila þekkingu með Íslendingum. Á fundinum var lagður grunnur að víðtæku samstarfi Nei til EU og Heimssýnar á Íslandi.
Íslendingar eru auðug þjóð, rík af náttúruauðlindum auk þess sem mikil tækifæri felast í legu landsins m.a. með tilliti til nýrrar siglingaleiðar um Norðurhöf. Heimssýn okkar er víðari en svo að hún nái aðeins til landa í Evrópusambandinu þar sem einungis búa 6% jarðarbúa. Framundan er barátta fyrir fullveldi þjóðarinnar. Með samtakamætti á þverpólitískum grunni næst besti mögulegi árangur í þeirri baráttu. Við hvetjum þá sem eru sammála okkur að skrá sig í Heimssýn og taka virkan þátt í baráttunni: www.heimssyn.is
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og formaður Heimssýnar
Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.