Nú skulu allir eiga svarta sorptunnu

Þegar hafið verður að flokka sorp í Skagafirði nú síðar í mánuðinum þurfa þeir sem ekki eiga svarta 240 lítra sorptunnu við heimili sitt að festa kaup á einni slíkri.

Flokkun sorps í þéttbýli í sveitarfélaginu Skagafirði hefst núna í janúar á þéttbýlisstöðunum Sauðárkróki, Hofsósi, Hólum og í Varmahlíð.

Í tilkynningu á heimasíðu sveitarfélasgins segir;

-Við hvert heimili skulu vera tvær sorptunnur, 240 lítra plasttunnur, önnur fyrir óendurnýtanlegt sorp sem fer í urðun (svört tunna). Í þá tunnu verður látið 35 lítra brúnt hólf fyrir lífrænan úrgang.

Hin tunnan er fyrir flokkaðan úrgang til endurvinnslu (græn tunna).

Húsráðandi þarf sjálfur að útvega sér svörtu tunnuna en þá grænu  útvegar Sveitarfélagð. Brúna  hólfið  í svörtu tunnuna útvegar Sveitarfélagið einnig ásamt boxi í „eldhússkáp" fyrir lífrænan úrgang.

Þeir sem nú þegar eiga ekki svarta tunnu geta fengið þær keyptar hjá OK gámaþjónustu. Þar er einnig hægt að fá veggfestingar fyrir tunnurnar.

Í fjölbýlis- rað- og parhúsum er heimilt að íbúar taki sig saman um sorpílát. Beiðni um það skal komið á framfæri við OK gámaþjónustu. Sérstaklega er bent á að sorpílát skulu vera staðsett þannig að þau séu aðgengileg fyrir sorphirðumenn. Ef þörf krefur skulu húsráðendur hreinsa snjó frá sorpílátum og halda ávalt greiðfærri leið að þeim.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir