Nú höfum við öll skyldum að gegna

Ég óskaði eftir því sl. fimmtudag á fundi atvinnuveganefndar Alþingis að strax og menn sæju  í heild afleiðingar veðuráhlaupsins á Norðurlandi, tæki nefndin þau mál fyrir á fundi sínum. Markmiðið væri að þessi nefnd, sem fer meðal með málefni atvinnuveganna, fengi yfirlit um umfang vandans, afleiðingum veðuráhlaupsins á landbúnaðinn og stöðu bænda, sveitarfélaga og annarra, gerði sér grein fyrir þeim úrræðum sem hægt væri að beita til þess að koma til móts við þá sem hefðu orðið fyrir tjóni og kynnti sér til hlítar hvort breyta þyrfti lögum, svo unnt yrði að bæta það tjón sem  veðurofsinn hefði valdið.

Lagði ég áherslu á að fengnir yrðu til fundar við okkur heimamenn, fulltrúar bænda, sveitarfélaga og aðrir þeir sem málið varðaði.

Félagi minni í nefndinni Sigurður Ingi Jóhannsson, hafði sömuleiðis óskað eftir sams konar yfirferð til þess að  nefndin gerði sér grein fyrir afleiðingunum fyrir raforkuöryggi.

Margháttað tjón

Það er mjög nauðsynlegt að Alþingi sé sem best upplýst um þessi mál. Eins og mál standa, nú þegar þessi orð eru rituð, er ekki hægt að segja neitt til um raunverulegt umfang vandans. Þau mál munu hins vegar skýrast næstu dag. Öllum er hins vegar ljóst að tjónið er óskaplegt. Þetta mikla veðuráhlaup á haustdögum, þegar menn eiga ekki á öðru eins von, eru algjör fádæmi.

Ég hef rætt við bændur á Norðurlandi vestra á undanförnum dögum til þess að gera mér grein fyrir stöðunni. Af þeim samtölum er mér  ljóst að þar hafa menn orðið fyrir margvíslegu tjóni, þó það jafnist ekki á við það sem gerist austar. Fyrir liggur að bændur hafa misst kindur, fé kann að hafa laskast, fréttir hafa borist af tjóni á öðrum búpeningi,  afurðir  kunna að hafa rýrnað og marg háttað annað tjón hlotist af. Bændur og aðrir sem komið hafa til skjalanna hafa lagt hart að sér undanfarna sólarhringa við að bjarga bústofni sínum við mjög erfiðar aðstæður.

Náttúruhamfarir

Í raun  má jafna þessu veðuráhlaupi við hreinar náttúruhamfarir. Við slíkar aðstæður eigum við öll að standa saman og gera það sem í mannlegu valdi er til þess að aðstoða þá sem fyrir búsifjunum verða. Það höfum við alltaf gert, eins og ég þekki til dæmis frá Vestfjörðum.

Nærtækt er líka að nefna að í náttúrhamförunum á Suðurlandi af völdum eldgosa brugðust menn við með sama hætti. Ég hafði að því atbeina þá, að atvinnuveganefnd skoðaði lagabreytingar sem gera þyrfti til þess að koma til móts við bændur. Um það skapaðist góð pólitísk samstaða, sem og um að auka fjármagn til Bjargráðasjóð, svo að stoða mætti bændur við þær aðstæður.

Við aðstæður eins og þær sem skapast hafa á Norðurlandi vegna veðuráhlaupsins, eigum við öll eina sál. Þá leggja menn dægurþrasið til hliðar og vinna sem einn maður að því að koma til móts við þá sem fyrir áföllunum verða.

Bændum og öðrum þeim sem nú mæta svo miklu mótlæti sendi ég mínar bestu kveðjur.

Einar K. Guðfinnsson alþingismaður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir