Nám í hestamennsku í FNV

Ég hef allan minn starfaldur starfað við hestamennsku. Ég flyt í Skagafjörð 1998 og hef búið þar og tamið og ræktað hross síðan ásamt manni mínum Birni Jónssyni. Vorið 2003 útskrifast ég sem tamningamaður, þjálfari og reiðkennari frá Hólaskóla. Hef ég kennt hestamennsku síðan, bæði börnum og unglingum hér í Skagafirði og ýmis kennsluverkefni annars staðar. Árið 2004 tók ég við kennslu í FNV . Hef ég lengi haft þá ástríðu að vilja efla kennslu í hestamennsku hér í Skagafirði.

Greinarhöfundur á Rós frá Vatnsleysu. Greinarhöfundur á Rós frá Vatnsleysu.

Kennsla í hestamennsku í FNV er ekki ný af nálinni, hér hefur verið boðið upp á valáfanga síðan 2002. Hef ég kennt í FNV um tíu ára skeið, tók ég við keflinu af Ingimari Ingimarssyni. Hefst þetta allt með samstarfi Hólaskóla og FNV. Höfum við líka verið með í þróun og uppbyggingu Knapamerkjanámsins sem byrjaði í svokölluðu átaksverkefni í hestamennsku fyrir margt löngu en hefur verið staðsett í Hólaskóla. Samstarf Hóla og FNV hefur alltaf verið virkt og hafa fulltrúar Hólaskóla alltaf séð um prófdæmingu. Einnig hafa nemendur farið í kennslu hjá nemum Hólaskóla og fleira gott. Kennsla í skólanum hefur verið í formi valáfanga þar sem nemendur koma með sinn hest og ljúka stigum í knapamerkjum með verklegu og bóklegu prófi.

Stefnt hefur verið að því lengi að setja af stað braut í hestamennsku v ið FNV. Þykir mér það líka eiga vel við hér í Skagafirði þar sem við eigum svo ríka sögu af hestum, hestamönnum og hrossarækt.  Hólaskóli er eini reiðskólinn í heiminum með íslenska hestinn sem er staðsetur hér í Skagafiðri á þeim sögufræga stað Hólum. Þá má ekki gleyma þeim stóra hópi sem starfar að hestamennsku að atvinnu á einn eða að annan hátt hér á svæðinu.

Vor 2013 sóttu FNV og FSU um styrk til Menntamálaráðuneytis til námsbrautargerðar. Sem og við fengum. Vinnan fól í sér samráð, skipulag námsbrauta, semja áfangalýsingar og skrá í námskrárgrunn. Ég sem fulltrúi FNV og Sigríður Pjétursdóttir höfum haft hitann og þungann af verkefninu, einnig hafa starfað með okkur kennarar hestamennsku við FSU. Nýttum við okkur niðurstöður og gögn frá starfshópi um viðmiðunarramma og röðun náms á hæfniþrep í hestamennsku. Voru knapamerkin hryggstykkið í þessum viðmiðum sem notuð voru til grundvallar hæfniþrepanna. Höfum við starfað að þessu síðan um haust 2013.

Höfum við nú að mestu lokið hönnun og skrifum á starfsnámsbraut í hestamennsku sem er 2ja ára nám. Síðan býðst nemendum að taka viðbótarnám á brautinni til stúdentsprófs. Í náminu þurfa nemendur að fara í tvær sex vikna starfsnámslotur í atvinnulífinu. Hér erum við svo heppin að í nágrenni skólans erum við með mjög mörg fyrirtæki sem reka hestatengda þjónustu. Stefnt er að því að kenna þessar bautir með sama sniði í báðum skólum. Áætlað að kennsla hefjist haustið 2015. Tel ég þetta vera mjög mikilvægt skref í þá átt að eiga betur menntaða starfstétt sem og betri neytendur fyrir þá þjónustu sem atvinnugreinin nú þegar bíður upp á. Umfang brautarinnar er töluvert, sérgreinar í hestamennsku eru stórar. Verklegi þátturinn er stór; Fóðrun og hirðing, kynning á járningum og hófhirðu . Hugmyndin er að fá hina ýmsu fagmenn innan greinarinnar til kennslu og kynningar á hestamennsku.

Markmið brautarinnar er að útskrifa hæft starfsfólk til aðstoðar í greininni svo sem á tamningastöðvar, hestatengda ferðaþjónustu, hrossaræktarbú og reiðskóla. Einnig sem undirbúning fyrir frekara nám í Háskólanum á Hólum.

„Mennt er máttur,“ það er hverju orði sannara. Í samfélagi sem okkar hér í Skagafirði er mjög mikilvægt að hafa sem mesta möguleika á menntun og þurfum við að standa vörð um þennan þátt samfélagsins. Að hafa aðgang að menntun í heimabyggð er mjög mikilvægt fyrir unga fólkið okkar og einnig til að skapa menntuðu fólki störf við þeirra hæfi. Á tímum niðurskurðar ríður á að standa saman vörð um þennan stólpa í samfélagi okkar sem skólinn er og mikilvægt að þeir sem búi á svæðinu nýti sér þann kost að stunda nám í heimabyggð og beri hróður skólans síns sem víðast. Tel ég einnig að við getum boðið ungu fólki möguleika á að koma lengra að í nám til okkar því heimavist skólans hefur tekið stakaskiptum og er mjög góð. Hestamennska er ekki undanskilin þessu hér væru möguleikar að taka á móti hestfólki hvaðan æfa að af landinu.

Á komandi vorönn er ætlunin að bjóða upp á kynningaráfanga á hestamennsku sem við kusum að nefna Fákar. Í áfanginn er öllum opin og er ætlunin að kynna hestamennsku og komandi námsmöguleika fyrir sem flestum. Munum við fá kynningar úr atvinnulífinu sem og fara í skemmtilegar vetvangsferðir til að kynna okkur og kynnast hestamennsku í sem flestum myndum. Hvet ég alla sem hafa áhuga á að kynna sér hestamennsku að skrá sig.

Arndís Brynjólfsdóttir, hrossaræktandi á Vatnsleysu og kennari.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir