Myrkrið nýtt til skemmtunar á Sólgörðum

Þjóðsögur og söngvar tengdir jólum, áramótum og þrettánda, hafa verið áberandi í skólastarfinu á Sólgörðum undanfarnar vikur.  Pistill úr Fljótunum.

Mikið hefur verið hlustað á þjóðsögur tengdar þessum dögum, enda nauðsynlegur og skemmtilegur fróðleikur.  Til að ná fram réttu baðstofustemningunni eru fyrstu tímar morgunsins nýttir, í svarta myrkri eru öll ljós slökkt, og lesið við kertaljós.  Við þannig aðstæður lifna alls kyns verur fyrir hugskotssjónum manns.

Einnig höfum við farið upp í skógarstofuna okkar, tendrað bál og sungið.  Þannig læra börnin að kveikja upp í timbri, meðhöndla eld, og syngja áramóta- og þrettándasöngvana, auk þess sem við skemmtum okkur konunglega.

Á þrettándanótt (kl. 8 um morguninn) settum við upp höfuðbúnað ýmissa vera sem kveðja í jólalok (huldufólk, álfakóngar og drottningar, jólasveinar, grýla og leppalúði), og við kertaljós sungum við áramóta- og þrettándasöngva.  Það fylgir mynd með frá þeirri stundu, en auðvitað urðum við að kveikja ljósin, sem drepur alla stemningu.  Myrkrið er víst ekki vel fallið til ljósmyndunar.

Þá hafa börnin lært utanað, undanfarnar vikur, heilmikið safn af þeim söngvum sem tilheyra hátíðunum.

Í vikunni sem leið voru ýmsar gamlar frásagnir úr Fljótunum lesnar, um ísbirni, hrakninga á sjó, og fleiri mannraunir, en þessar sagnir má kynna sér í bókunum Einu sinni var, sem eru endurminningar Sæmundar Dúasonar, og gerðust um aldamótin 1900. 

Kennarar á Sólgörðum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir