Minkaskinn tvöfaldast í verði milli ára
Vísir.is greinir frá því í dag að verð á minkaskinnum hækkaði um 36% á uppboði hjá Kopenhagen Fur í Kaupmannahöfn í morgun. Þetta þýðir að framleiðsluverðmæti íslenskra minkabúa mun tvöfaldast milli ára en flest skinnin héðan eru seld hjá Kopenhagen Fur á apríl- og júníuppboðunum.
Meðalverð fyrir skinn á uppboðinu nú reyndist um 7.000 kr. en hæstu verðin eða 10.500 kr, fengust fyrir stutt hvíthærð karlskinn. Björn Halldórsson formaður Sambands íslenskra loðdýraræktenda segir við Vísi.is að hérlendis séu nú framleidd að jafnaði 160 til 180.000 minkaskinn.
Minkabændur á Íslandi sækja fjármögnun sína beint til Kopenhagen Fur. Þar fá þeir sín afurðalán gegn veði í dýrum og skinnum. Og vextirnir á afurðalánunum frá Kopenhagen Fur eru aðeins 4%. „Slíkt þætti gott hérlendis í dag," segir Björn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.