Mikil veiði í húnvetnsku laxveiðiánum

Mynd: Lax-á.is

Nú er ljóst að alls komu 1165 laxar á land í sumar á þeim 70 dögum sem Laxá á Ásum var opin. Það er meðalveiði uppá 8.32 laxa á stöng á dag samkvæmt því sem kemur fram á Lax-á.is. Laxáin verður mjög sennilega aflahæsta laxveiðiáin á landinu ef miðað er við veidda laxa per stöng per dag.

 

Aðrar ár í Húnavatnssýslum hafa glatt veiðimenn en Víðidalsá hefur verið að gera það gott í sumar og stefnir í metveiði. Víðidalsá lokar 24 september og eru menn að gæla við það hvort hún nái ekki 2000 laxa markinu en uppselt er til lokadags í ána.

 

Þá hefur verið góð veiði í Svartá í A-Hún en áin var komin í 372 veidda laxa upp úr mánaðamótum og stefnir í bestu veiði í rúman áratug. Laxarnir hafa veiðst víðsvegar um ána en sagt er á Lax-á.is að útbreiddur sé sá misskilningur að lax veiðist ekki ofar en við Hólslæk í Svartá en vel sé laxgengt upp á silungasvæðið sem er fyrir ofan laxasvæðið.

 

Veiðin í Blöndu hefur verið einstaklega góð þetta sumarið og fara þar saman nokkrir samverkjandi þættir sem ekki verða raktir hér en aðstæður hafa verið afar góðar. Gríðarlega öflugar smálaxagöngur hafa verið í ánni þetta sumarið og hafa þær verið frábær viðbót við stórlaxana sem ávallt má finna í Blöndu, eins og segir á Lax-á.is.

 

Metveiðin í ánni er frá árinu 1975 en þá veiddust 2.363 laxar í ánni en allt stefnir í nýtt met í ár en ekki er gott að segja til um aflatölur því skráningarbókin fór á flakk í örfáa daga og fannst ekki, þannig að einhverjir veiðimenn hafa lent í vandræðum með skráningu afla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir