Mikil spenna á fyrsta pókermótinu á Blönduósi

Frá pókermóti á Blönduósi. Mynd: Húni.is

Pókermót fór fram í Félagsheimilinu Blönduósi þann 4. desember og var þátttaka mjög góð en 31 pókerspilari mætti til leiks þar af voru u.þ.b. 13 manns sem komu frá öðrum bæjarfélögum en Blönduósi.

 

Spilað var hið geysivinsæla Texas Hold'em á fjórum borðum þar sem hver og einn fékk ca. 10.000 kr. í spilapeningum.  Spilarar fóru að týnast út einn af öðrum eftir því sem leið á kvöldið og voru borðin sameinuð eftir því sem á leið og mönnum fækkaði.  Á lokaborðinu voru svo 9 spilarar, þar af 4 Blönduósingar en það voru þeir Eric Stenslund, Þórður Rafn, Valur Óðinn og Guðmundur Haukur.  Valur komst þeirra lengst og lenti í 4. sæti, þeir þrír sem eftir sátu voru þaulreyndir skagfirskir pókerspilarar.  Þegar klukkan var orðin tvö um nóttina þá ákváðu þeir þrír að skipta með sér sigurlaununum, mótshöldurum til nokkurar ánægju þar sem spilið hefði hæglega getað staðið langt fram undir morgun.  Það voru því þeir Sigþór Gunnarsson, Brynjar Örn Guðmundsson og Gunnar Smári Reynaldsson sem skiptu með sér 75.000 kr. og fengu hver 25.000 kr. í sinn hlut, sem hlýtur að teljast ásættanlegt.

Mótið var mjög vel heppnað þrátt fyrir algjört reynsluleysi í pókermótum, reyndari pókerspilarar voru mjög sáttir með alla umgjörð og þótti mótið skemmtilegt.  Það er nokkuð ljóst að fleiri mót verða haldin í náinni framtíð, sennilega um jólin og þá væri gaman að sjá fleiri kvenkyns spilara en það var aðeins ein sem mætti að þessu sinni.

/Húnahornið

palli@feykir.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir