Mikið um að vera á Landsmóti
Nú er annar dagur Landsmótsins hafinn og hefur það farið vel af stað. Talsverður fjöldi fólks er mættur á Sauðárkrók til þess að taka þátt í viðburðum helgarinnar og á sá fjöldi væntanlega eftir að margfaldast þegar líður á daginn.
Í gær fór vaskur hópur fólks í þriggja tinda göngu á Mælifellshnjúk, Tindastól og Molduxa og má sjá myndir úr göngunni á Facebooksíðu UMFÍ.
Dagurinn í dag byrjaði á morgunjóga í íþróttahúsinu og var það notaleg stemning að sögn Pálínu Hraundal, verkefnisstjóri Landsmótsins.
Í hádeginu, alla daga mótsins, verður boðið upp á örfyrirlestra í Húsi frítímans sem hefjast allir kl. 12:15 og standa í 30 mínútur. Í dag heldur Sabína Steinunn Halldórsdóttir, íþrótta- og heilsufræðingur fyrirlestur sem nefnist Færni til framtíðar, hreyfifærni og náttúran, hvað hef ég og hvað get ég gert. Allir eru velkomnir á fyrirlestrana og boðið er upp á súpu.
Milli klukkan 16 og 18 verður haldin ráðstefna í Húsi frítímans þar sem margir áhugaverðir fyrirlestrar eru í boði.
Einn af hápunktum dagsins er keppni í Boccia sem hófst kl. 9 í morgun í íþróttahúsinu og stendur til kl. 17. Í Litla skógi verður útivist frá kl. 14-16 og keppt er í hinum ýmsu greinum hér og þar um bæinn. Klukkan 18 verða svo göturnar iðandi af lífi þegar 10 km götuhlaup hefst.
Í kvöld klukkan 19:00 hefst svo dagskrá í miðbænum þar sem mótið verður formlega sett og svo tekur við götupartý og gleði fram eftir kvöldi. Meðal skemmtikrafta eru Auddi og Steindi og hljómsveitin Albatross og Sverrir Bergmann ásamt fleirum. Dagskránni lýkur svo með miðnæturjóga á sandströndinni kl. 23:45 í kvöld.
Dagskrá mótsins má nálgast HÉR.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.