Markviss stefna að auka byrðar á innanlandsflugið

Mjög alvarlega staða er nú komin upp í innanlandsflugi okkar. Óvissa um Reykjavíkurflugvöll og skattahækkanir þær sem hafa á dunið á þessari mikilvægu starfsemi  hafa þegar tekið mikinn toll og alls ekki útséð með framhaldið. Þetta eru alvarleg tíðindi fyrir þá um 800 þúsund farþega sem notað hafa innanlandsflugið á síðustu árum og getur verið hreint reiðarslag fyrir þær byggðir sem reiða sig á þennan samgöngumáta. Atvinnulíf þessara byggða og almenning allan.

Þess vegna tók ég þessi mál upp í sérstakri umræðu á Alþingi á miðvikudaginn var, 15. febrúar sl. þar sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra var til andsvara.

Innanlandsflugið er almenningssamgöngur
Þetta er sér kennilegt í ljósi þess að gjarnan er vísað til þess sem er augljóst að innanlandsflug er hluti af almenningssamgöngukerfi okkar og yfirlýst stefna stjórnvalda er einmitt að efla þann samgöngumáta sérstaklega, að því er fram kemur í nýrri tillögu að samgönguáætlun.

En hefur það verið svo? Hafa stjórnvöld leitast við að efla innanlandsflug, sem einn mikilvægasta hluta af okkar almenningssamgöngukerfi.

Því fer víðs fjarri og raunar þvert á móti Stjórnvöld hafa lagt steina og kannski heilu björgin í veg innanlandsflugsins, vegið að því með skattaálögum og teflt því í mikla tvísýnu.

Lendingargjöld eiga að hækka um 250 milljónir
Ég vakti athygli á þessari þróun í fyrra með því að hafa forgöngu um að þessi mál yrðu einmitt rædd á Alþingi. Þá vofðu yfir gríðarlega miklar skattahækkanir, allt að 400 milljónum króna, litið yfir tveggja ára tímabil. Sem betur tókst að hrinda þeirri atlögu að nokkru. Dregið var úr áætluðum gjaldahækkunum ríkisins vegna mikilla mótmæla bæði hér innan þings og vegna viðbragða úr samfélaginu.

En enn er ætlunin að vega í sama knérunn. Enn eru boðaðar skattahækkanir, nú síðast í samgönguáætlun þeirri sem lögð var fram á þessu þingi og Alþingi hefur nú til meðferðar. Þar er það boðað að á tveimur árum verði lendingargjöld hækkuð um 250 milljónir í tveimur áföngum á atvinnustarfsemi sem veltir um 4 milljörðum króna. Þetta eru geigvænleg tíðindi sem fyrirsjáanlega munu bitna að lokum á flugfarþegum og þeim byggðum sem háðastar eru flugsamögnum. En hér er ekki allt talið.

Markviss stefna að auka byrðar á innanlandsflugið
Það er ljóst að ríkisvaldið hefur fylgt markvissri stefnu á þessu kjörtímabili að leggja auknar byrðar á innanlandsflugið sérstaklega.

Opinber gjöld sem sérstaklega leggjast á innanlandsflugið hafa nú hækkað um meira en helming frá árinu 2009  og fram á þetta ár, eða um 114%. þar af um 32% á milli ára núna. Þetta er ekkert smáræði. Sértæk skattahækkun á eina atvinnugrein sem þó býr við afar þröngan kost, um meira en helming á ekki lengri tíma er í rauninni algjörlega óskiljanlegt. Lagðir hafa verið á nýir skattar og gjöld eins og leiðarflugsgjald og kolefnisgjald, og aðrir tekjustofnar ríkisins af innanlandsflugi hækkaðir gríðarlega. Hér er höggvið þar sem hlífa skyldi.  Og enn eru boðaðar frekari hækkanir á kostnaði í innanlandsflugi í þeirri stefnumótun sem ríkisstjórnin hefur sett fram.  Það sjá allir að þetta gengur alls ekki. Hér verður að skipta um kúrs.

Til viðbótar við þetta höfum við séð að eldsneytiskostnaður innanlandsflugsins eins og annarra hefur hækkað gríðarlega. Eldsneytisreikningur Flugfélags Íslands hækkaði um 300 milljónir króna – um 40% prósent-   á síðasta ári miðað við árið á undan og ekkert lát er bersýnilega a þessu.

Hlífðum innanlandsfluginu – en nú er engu eirt
Innanríkisráðherra benti á það að í umræðunni á Alþingi að sé litið yfir lengra tímabil þá hafi gjaldahækkanir ríkisins á innanlandsflugið ekki fylgt verðlagi. Og það er einmitt kjarni málsins. Fyrri stjórnvöld fylgdu markvisst þeirri stefnu að halda þessum opinberu gjöldum í skefjum, til þess að skapa gott rekstrarumhverfi fyrir innanlandsflugið og halda aftur af hækkunum á fargjöldum. Nú er snúið við af þeirri braut. Nú er verið að brjóta á bak aftur þessa stefnumörkun, hækka álögur upp úr öllu valdi á sama tíma og aðrar kostnaðarhækkanir ríða yfir. Þessi stefna er fjandsamleg innanlandsfluginu.

Fyrsta fórnarlambið
Við höfum þegar séð beinar afleiðingar af þessu. Innanlandsflug á Sauðárkrók er nú aflagt, þó heimamenn rói að því öllum árum að koma því á aftur. Flugið á Krókinn er því fyrsta beina fórnarlamb þessarar skattastefnu gegn innanlandsfluginu sem beitt hefur verið af mikilli harðýðgi.

Vel þekki ég  svörin við þessu. Ríkissjóður þarf á fjármagni að halda er sagt. En hvernig er hægt að halda því fram að svo harkalega þurfi að vega að innanlandsfluginu, sem ekki þolir svona gjaldahækkanir, að það valdi því að álögur ríkisins hækki sérstaklega á þessa atvinnugrein um meira en helming á ekki lengri tíma?  Það gengur auðvitað ekki.

Innanlandsflugið er að verða lúxus
Nú er svo komið að innanlandsflug er að verða lúxus sem ekki er lengur á færi alls almennings. Ég fletti upp á heimasíðu Flugfélags Íslands hvað það kosti að fljúga innan lands á nokkra staði. Í ljós kemur að það kostar nú án afsláttarkjara 38.300 fram og til baka frá Egilsstöðum og 33.900 krónur frá Akureyri og Ísafirði. Fyrir hjón er kostnaðurinn því 70 til 80 þúsund krónur að fljúga á þessum leiðum. Svo geta menn reiknað ef um er að ræða ferðir fjölskyldna.

Dæmisaga af ungum námsmanni af landsbyggðinni
Ég ætla að taka annað dæmi. Setjum okkur í spor ungs námsmanns sem hefur haldið til háskólanáms frá Egilsstöðum eða Ísafirði til Reykjavíkur. Sá hinn sami vill kannski dvelja heima hjá sér um jól eða í lengri námsleyfum og lætur sér jafnvel detta í hug að heimsækja foreldra og ættingja einu sinni eða tvisvar yfir veturinn. Slíkt verður honum óviðráðanlegt, nema eiga einhverja þá að sem hafa efni á að greiða þessi fargjöld fyrir hann. Og setjum þetta í annað samhengi. Í vetur var verið að takast á um það hvort hækkun innritunargjalda í Háskólann upp úr 40 og upp í 65 þúsund kall væri aðför að jafnrétti til náms. Hvað þá með rétt þess unga fólks sem á ekki annan kost en að sækja nám sitt fjarri heimabyggð og þarf að lúta slíkum ferðakostnaði, sem stafar meðal annars af skattahækkunum ríkisins á þennan samgöngumáta?

Grafalvarlegt mál – höfðað til réttlætiskenndar innanríkisráðherra
Við erum því hér að ræða grafalvarlegt mál, þar sem mjög mikið er í húfi fyrir mjög marga. Í ræðu minni á Alþingi sl. miðvikudag skoraði ég  á innanríkisráðherra að standa með okkur vörð um innanlandsflugið, í þágu landsmanna allra og alveg sérstaklega landsbyggðarinnar og þeirra sem minna mega sín. Ég höfðaði til réttlætiskenndar ráðherrans  og bað hann um að leggja okkur lið við að hrinda þessari atlögu. Hér er geysilega mikið í húfi. Við getum ekki haldið áfram á sömu braut.

Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir