Mark beint úr útsparki á Blönduósvelli
Fjögurra liða úrslit í úrslitakeppni 4. deildar hófust í dag og átti lið Kormáks/Hvatar heimaleik í hádeginu gegn liði Ægis frá Þorlákshöfn. Það er skemmst frá því að segja að jafntefli var niðurstaðan í leiknum en leikið var við erfiðar aðstæður, það var hvasst á Blönduósi. Lokatölur 1-1 og enn því allt opið í baráttunni um sæti í 3. deild.
Í frásögn Fótbolta.net af leiknum segir að mikill vindur hafi verið á meðan á leiknum stóð og átti hann stóran þátt í jöfnunarmarki Ægis. Það skoraði Zoran Cvitkovac úr markspyrnu. „Vindurinn feykti boltanum upp völlinn og skoppaði hann í blautu grasinu. Hann þaut yfir markvörð heimamanna og í netið,“ segir í frásögninni. Fransisco Miguel Ros Tovar hafði komið heimamönnum yfir á 13. mínútu leiksins en þetta skrautlega jöfnunarmark kom eftir hálftíma leik.
Markaskorari Kormáks/Hvatar, Tovar, var síðan rekinn af velli á 53. mínútu en engu að síður fengu heimamenn ágætt færi til að ná forystunni í einvíginu en Zoran í marki Ægis varði vel. Undir lokin gátu Ægismenn tryggt sér sigur í leiknum þegar þeir fengu vítaspyrnu en skutu framhjá. Lokatölur því 1-1.
Síðari leikur liðanna fer fram á Þorlákshafnarvelli miðvikudaginn 11. september og hefst kl. 17:00. Liðið sem sigrar (eða nær sér í hagstæðara jafntefli) spilar í 3. deild að ári. Í hinum leik úrslitakeppninnar í dag sigraði Hvíti riddarinn lið Elliða 2-1.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.