Margrét Rún hélt hreinu í 1-0 sigri á Dönum
U16 ára landslið kvenna mætti Danmörku 2 á opna Norðulandamótinu í Aabenraa sem hófst klukkan 12:30 í dag. Margrét Rún Stefánsdóttir, leikmaður Tindastóls, var í byrjunarliði Íslands í leiknum og lék allan leikinn. Leikurinn endaði 1-0 fyrir Íslandi og hélt Margrét því markinu hreinu. Áður hafði Ísland gert 1-1 jafntefli við Svíþjóð í mótinu en Margrét sat á bekknum í þeim leik.
Hægt var að fylgjast með gangi leiksins á Facebook-síðu KSÍ og kom þar fram að Margrét hefði varið glæsilega í tvígang í leiknum.
"Margrét Rún ver glæsilega þegar leikmaður Danmerkur kemst ein í gegn," var sagt í lýsingunni á 11. mínútu og á 70. mínútu mun hún hafa varið aftur glæsilega. "Frábær varsla hjá Margréti Rún markverði! Teygir sig á eftir þrumuskoti Dananna!".
Margrét sigldi sigrinum síðan heim á 90. mínútu þegar hún var vel á verði með tímasett hlaup út úr teignum og hreinsaði langa sendinu í burtu.
"Margrét Rún kemur glæsilega út úr markinu og hreinsar burt langa sendingu Dananna."
Hún toppaði síðan frábæran leik með því að verja tvær vítaspyrnur en eftir alla leiki á mótinu æfa liðin vítaspyrnukeppnir óháð úrslitum. Ísland hafði þar betur, 4-2.
"Margrét markvörður varði tvær fyrstu spyrnur Dana," segir í textalýsingunni.
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.