Mannabein finnast á Kili
Fyrir tveimur vikum fann Guðmundur A Guðmundsson dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun bein sem hann ályktar að sé úr höfuðkúpu manns við Guðlaugstungu á Kili. Að sögn Guðmundar var beinið greinilega að koma úr jörðu en hann hefur tilkynnt málið til lögreglu.
Aðspurður segist Guðmundur ekki hafa leitað mikið meira af fleiri beinum en þó hafi hann skimað í kringum sig en ekki séð neitt. –Mig grunaði að þetta væri mannabein og stakk því beininu ofan í bakpokann hjá mér. Ég hef síðan fengið það staðfest hjá læknanema að líklega sé þarna um mannabein að ræða en það þarf þó að staðfesta það endanlega, segir Guðmundur.
Guðmundur segist ekki gera sér grein fyrir hversu gamalt beinið er en það hafi greinilega verið að koma upp úr jörðu en það hafi hann séð á fléttum og öðru sem á beinunum var.
Það liggur beinast við að leika sér með þá hugmynd að þarna sé um bein Jóns Austmanns að ræða en hann hvarf um leið og Reynisstaðabræður og hefur ekkert fundist af honum að undanskilinni hendi hans sem fannst innan í vettlingi. –Ég veit ekki um hvaða bein er þarna að ræða og hefur ekki dreymt neitt síðan ég fann beinin enda er ég ekki draumspakur maður, svarar Guðmundur þegar blaðamaður ber hugmyndina undir hann.
Beinin munu verða könnuð af greiningarnefnd mannabeina en að líkindum er þarna fremur um fornleyfamál að ræða en glæðamál enda ljóst að beinin eru gömul.
Guðmundur var ásamt þremur öðrum starfsmönnum við fuglatalningu á Kili þegar beinið fannst en hann mun hafa tekið GPS punkt fundarins og verður því hægt að leita frekar á svæðinu verði það staðfest að um mannabein sé að ræða.
Til gamans látum við hér fylgja með söguna um Reynisstaðabræður;
REYNISTAÐABRÆÐUR
Um haustið 1780 sendi Halldór Bjarnason, er þá hélt Reynistaðarklaustur, son sinn tvítugan, er Bjarni hét, og mann með, er Jón hét og var kallaður Austmann, suður um land til fjárkaupa því fyrirfarandi ár hafði mjög fallið fé á Norðurlandi.
Síðar um haustið sendi og Halldór yngri son sinn suður, er Einar hét, ellefu ára að aldri, og mann með honum, er Sigurður hét, og áttu þeir að hjálpa hinum til að reka féð norður er þeir höfðu keypt.
Það er mælt að Einar hafi nauðugur farið þessa för og hafi sagt að hann mundi ekki aftur heim koma. Hitt er og mælt að faðir hans hafi ákaft viljað láta hann fara því þó Reynistaðarfólk væri auðugt bjóst Halldór við að vinir sínir mundu gefa Einari kind og kind, er hann, svo ungur, færi til fjárkaupanna.
Þegar þeir bræður voru að fjárkaupunum eystra og syðra er mælt að Bjarni, er var í flestu fyrir þeim félögum, hafi eitt sinn komið inn í smiðju þar sem prestur nokkur var að smíða járn. Bjarni tók upp járnbút einn er lá hjá presti og mælti:
Tvíllaust þetta tel ég stál,
tólin prests eru komin á ról.
Þessu reiddist prestur því svo stóð á að hann átti þunga með vinnukonu sinni og hugði, sem þó var ekki, að Bjarni hefði heyrt það og vildi bregða sér brigslum. Prestur svaraði þá í bræði sinni:
Ýli þín af sulti sál,
sólarlaus fyrir næstu jól.
Þessi ummæli prests urðu að áhrínsorðum því seint um haustið lögðu þeir félagar fjórir með féð upp á fjöllin og ætluðu norður Kjalveg þrátt fyrir aðvaranir vina þeirra og kunningja því svo þótti sem feigð kallaði að þeim. Var þeim þá fenginn leiðsögumaður er Jón hét. En allt um það komu þeir hvergi fram og urðu allir úti með fénu og öðrum fjármunum er þeir höfðu með sér.
Nú leið allur veturinn svo að ekkert spurðist til þeirra bræðra. En fyrst fengu menn á Reynistað grun á hvernig farið hefði þegar Björgu Halldórsdóttur, systur þeirra bræðra, dreymdi að Bjarni kæmi til sín og kvæði:
Enginn finna okkur má
undir fannahjarni.
Dægur þrjú yfir dauðum ná
dapur sat hann Bjarni.
Leið svo af veturinn til þess um vorið að ferðamaður einn fór suður fjöll og fann tjald þeirra félaga og þóttist sjá þar lík beggja þeirra bræðra og tveggja manna annarra. Síðar komu aðrir ferðamenn að tjaldinu, sáu þá aðeins tvö líkin og þegar sent var frá Reynistað eftir líkunum fundust ekki nema tvö. Var það lík þeirra Sigurðar og Jóns leiðsögumanns.
Eftir langa leit fannst miklu norðar á fjöllunum önnur höndin af Jóni Austmann, reiðtygi hans og reiðgjarðir sundurskornar og reiðhestur hans skorinn á háls. Var það trú manna að hann, sem hafði verið mestur mannskapsmaður þeirra félaga, hefði haldið norður þangað en hefði, þegar hann örvænti um að ná norður í byggð, drepið sjálfur hestinn til að stytta eymdarstundir hans.
En af bræðrunum fannst hvorki hold né hár né heldur gripir þeir er þeir höfðu haft með sér. Þegar lík þeirra bræðra fundust ekki dreymdi systur þeirra enn að Bjarni bróðir sinn kæmi og kvæði þetta:
Í klettaskoru krepptir liggjum bræður
en í tjaldi áður þar
allir hvíldum félagar.
Af þessari stöku fengu menn grun á að maður nokkur, sem farið hafði þennan veg um vorið, hefði stolið af líkum þeirra bræðra öllu fémætu, tekið síðan líkin sjálf úr tjaldinu og falið einhvers staðar.
Var þá byrjuð rannsókn og mál höfðað en allt kom fyrir ekki. En með því ekkert var sparað til að fá skýrslu um líkhvarfið var galdramaður til fenginn að vita hvers hann mætti vísari verða. Hann hafðist við í úthýsi á Reynistað. Þóttist hann sjá að lík þeirra bræðra væru urðuð í hraungjótu og stór hella ofan á en miði með rúnum lægi undir hellunni og sagði karl að líkin mundu ekki finnast fyrr en miðinn væri að engu orðinn.
Þóttist hann sjá þetta allt gjörla heima og bjóst til ferðar en á leiðinni glaptist allt fyrir honum svo hann fann ekki líkin er hann kom í óbyggðina þar sem þeirra var von.
Líkin fundust loks nálægt 1845 suður í Kjalhrauni, undir hellu eins og galdramaðurinn hafði sagt.
(J.Á.I. -- Eftir Árbókum Espólíns og sögn nyrðra frá síra Skúla Gíslasyni.)
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.