Lögregla og björgunarsveit leituðu drukkins manns á Þverárfjalli

Lögreglan á Blönduósi við hefðbundin störf Mynd: Lögreglan.is

 Ævintýraleg atburðarás þar sem aðalleikararnir voru drukkinn ökumaður, lögreglan á Blönduósi, Sauðárkróki, Siglufirði og Ólafsfirði auk björgunarsveitar endaði með því að ökumaðurinn fannst ofurölvi úti í móa við Þverárfjallsveg seinni partinn í gær.

 

Málið byrjaði þannig að Blönduóslögreglan fékk ábendingu um drukkinn ökumann sem hún og stöðvaði við Blönduós. Þar fer málið í ferli, maður og bíll kyrrsettir þar til allsgáður kunningi mannsins kemur og leysir hann út. Ekki vill þó betur til að hinn allsgáði félagi afhendir hinum drukkna félaga sínum lyklana á bílnum og hinn drukkni, ökuréttindalausi maður heldur áfram för sinni og nú lá leiðin á Þverárfjalli. -Við fengum ábendingu um manninn og ræstum um leið út tvo bíla, annar fór á Vatnsskarð og hinn Þverárfjall. Á Þverárfjalli mætum við manninum við Heiði. Blikkuðum hann og snúum við til þess að stöðva manninn. Þegar við höfum snúið við hafði maðurinn sett allt í botn og var horfinn. Við vissum að hann væri á leið austur yfir og ræstum út bæði lögreglu á Siglufirði og Ólafsfirði, segir Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki. Eftir töluverðan tíma án þess að bólaði á manninum náði lögregla að hringja í farsíma mannsins og náðu þannig að sjá hvaða sendi maðurinn var að nota og sáu að hann hafði að líkindum ekki farið í gegnum Krókinn.  -Þá kom í ljós að maðurinn hafði náð að stingja sér inn á afleggjarann á Tungu og var kominn út úr bílnum. Var maðurinn í miklu ójafnvægi og hafði í hótunum um að binda endi á líf sitt. Þar sem það var að skella á með myrkri og kalt veður úti kölluðum við strax á björgunarsveit. Maðurinn fannst skömmu síðar þar sem hann lá kaldur og hrakinn um 800 metra frá bílnum. Maðurinn var tekinn á stöðina þar sem tekin var af honum skýrsla en að því loknu var honum ekið í öruggt skjól, bætir Stefán við.

 

Þess ber að geta að það voru athuglir vegfarendur sem upphaflega bentu lögreglunni á Blönduósi að um ölvunarakstur var að ræða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir