Loðskinn gæti þurft að fjölga starfsfólki
Rúv.is segir frá því að mokkaskinn eru nú sútuð á nýjan leik á Sauðárkróki, en síðast var mokkaskinnsframleiðsla hér á landi árið 2004. Veiking krónunnar hefur gert þessa framleiðslu hagkvæma og einnig er markaður fyrir mokkaskinn talinn vera álitlegur.
Hér á árum áður voru mokkaskinn framleidd í stórum stíl á bæði Akureyri og Sauðárkróki en ólíkt því sem gerðist á Akureyri þá lagðist sútun aldrei af á Sauðárkróki og nú þegar hagstæðara er að framleiða mokkaskinn úr íslenskum gærum eru þessi vinnubrögð rifjuð upp.
Framleiðslan hófst í október og á þessu ári verður hún nokkur þúsund skinn. Á næsta ári er stefnt að því að súta um 30 þúsund mokkaskinn hjá Loðskinni á Sauðárkróki og segir Gunnsteinn Björnsson, framkvæmdastjóri Loðskinns, skinnin fara á innanlandsmarkað, til Danmerkur, Bretlands og Ítalíu. Hann er bjartsýnn á framhaldið og segir framleiðsluna mannfreka og ef svo fari fram sem horfi þurfi að fjölga starfsfólki á næstu misserum.
oli@feykir.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.