Ljúffengir fiskréttir - hugmyndir fyrir kvöldmatinn í kvöld

Fiskréttur 1 - mynd af vefnum eldhussogur.is
Fiskréttur 1 - mynd af vefnum eldhussogur.is

Það er sunnudagur í dag og þá vill oftar en ekki vera eitthvað létt í matinn eftir mikið helgarát. Þá er tilvalið að leita uppi ljúffenga fiskrétti sem vonandi einhverjir geta nýtt sér við eldamennsku í kvöld.

FISKRÉTTUR 1
Mexikóskur fiskréttur

    1 kíló þorskur, ýsa eða annar góður fiskur
    1 stór rauð paprika, skorin í strimla
    250 g sveppir, skornir í sneiðar
    1 rauðlaukur, skorinn í strimla
    1 bréf Fajitas kryddmix
    u.þ.b. 2/3 dl hveiti
    u.þ.b. 150 g rjómaostur
    u.þ.b. 300 g salsa sósa
    rifinn ostur t.d Mozarella

Aðferð: Ofninn hitaður í 200°C. Hér um bil öllu fajitas kryddinu er blandað saman við hveitið, u.þ.b. 1 tsk af kryddinu er geymt þar til síðar. Fiskurinn er skorinn í hæfilega stóra bita og þeim velt mjög vel upp úr fajitashveitiblöndunni. Þá er fiskurinn steiktur á pönnu upp úr smjöri og/ eða olíu á öllum hliðum þar til fiskurinn hefur náð fallegri steikingarhúð. Þá er fiskurinn lagður í eldfast mót. Því næst er smjöri bætt við á pönnuna og sveppir, paprika og laukur sett á pönnuna, kryddað með restinni af fajitas kryddinu. Grænmetið er steikt í smá stund og því næst dreift yfir fiskinn. Þá er rjómaostinum dreift yfir grænmetið. Því næst er salsa sósunni dreift yfir. Að lokum er rifna ostinum dreift yfir. Sett inn í ofn í u.þ.b. 20 mínútur eða þar til osturinn hefur náð góðum lit og fiskurinn er eldaður í gegn. (Ef þú ert t.d með mjög þykka þorskhnakka þá þurfa þeir lengri tíma en þynnri fisksneiðar. Það þarf að miða bökunartímann út frá þykkt fisksins hverju sinni). Gott að bera fram með hrísgrjónum og baunaspírum frá Ecospiru.

Mynd og uppskrift tekin af eldhussogur.com

 

FISKRÉTTUR2
Fiskrétturinn sem fékk fimm *****

    600 g ýsa, þorskur eða annar hvítur fiskur skorinn í bita
    2 dl rækjur (má sleppa)
    2 gulrætur
    1 púrrulaukur
    1 rauð og 1 græn paprika
    1 grænt epli
    2 msk. smjör
    2 tsk. gott karríduft
    200 g hreinn rjómaostur
    1 dós 18% sýrður rjómi
    1 dl mangó chutney
    rifinn bragðmikill ostur, t.d. Óðalsostur
    paprikuduft, salt og pipar

Aðferð: Skerið fiskinn í passlega bita og kryddið með salti og pipar, leggið til hliðar. Saxið grænmetið og eplið í frekar smáa bita. Hitið pönnu á meðalhita og bræðið smjörið. Steikið grænmetið í smjörinu þar til það mýkist aðeins (geymið eplabitana). Bætið karríduftinu saman við og steikið það með í 1-2 mínútur. Bætið rjómaostinum, sýrða rjómanum og mangó chutney út á pönnuna og bræðið þetta saman. (Þynnið með örlitlu vatni ef ykkur finnst þetta of þykkt, en athugið að það kemur líka vökvi úr fiskinum þegar hann eldast.) Dreifið eplunum og rækjunum yfir og hrærið saman. Smakkið til með salti og pipar. Leggið svo fiskinn ofan á sósuna og grænmetið og leyfið þessu að malla þar til fiskurinn er nánast eldaður í í gegn. Stráið þá osti yfir ásamt smá paprikudufti og stingið inn í ofn undr grill í 5 mínútur eða þar til osturinn er gullinbrúnn. Stráið yfir saxaðri steinselju og berið fram með góðu salati og brauði eða hrísgrjónum.

Mynd og uppskrift tekin af eldhusperlur.com

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir