Litur ársins 2017 er hressandi og endurnærandi!
Græni liturinn „Greenery“ hefur verið valinn litur ársins, mér til mikillar ánægju. Þetta er einn af mínum uppáhalds, ekki endilega í fatavali, heldur frekar svona andlega. Grænn er litur náttúrunnar, táknar vöxt, sátt, ferskleika og frjósemi og kannski ekki skrítið að þessi litur minnir mig alltaf á sumrið, já elsku sumarið. Það er því um að gera að vefja þessum lit utanum sig á dimmum dögum til að lífga aðeins upp á skammdegið.
Ég átti erfitt með að finna þennan lit í nýjustu sendingunum hjá tískuvöruverslunum landsins, enda útsölurnar rétt að klárast. En það er alltaf hægt að finna fallegar heimilisskreytingar en maður þarf ekki að missa sig í að eiga allt í þessum lit eins og Omaggio æðið. Allt í einu þurfti ég að eiga alla stærðir og liti af þessum blessaða vasa en skil ekkert af hverju.
En ótrúlegt en satt þá langar mig alltaf í Mojito þegar ég sé þennan lit og kannski verð ég að passa mig að falla ekki í hendurnar á Bakkusi þetta árið. Það er kannski ekki svo slæmt því hann var grískt rómverskt goð, stæltur og myndarlegur og var sonur Seifs. Hver væri ekki til í það? Skál!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.