List fyrir alla í grunnskólunum
Grunnskólanemendur á Norðurlandi vestra fengu góða heimsókn í gær og fyrradag þegar hljómsveitin Milkywhale hélt tónleika á sex stöðum á svæðinu. Tónleikarnir eru á vegum barnamenningarverkefnisins List fyrir alla sem er á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins og er því ætlað að velja og miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum, óháð búsetu og efnahag. Höfuðáhersla er lögð á list fyrir börn og list með börnum og stefnt að því að á tíu ára grunnskólagöngu veiti verkefnið börnum góða yfirsýn yfir vettvang lista. Hægt er að kynna sér verkefnið betur á heimasíðunni List fyrir alla.
Hljómsveitin Milkywhale, sem var hér á ferð, er danshljómsveit sem hefur á að skipa tveimur meðlimum, þeim Melkorku Sigríði Magnúsdóttur, danshöfundi og söngkonu og tónlistarmanninum Árna Rúnari Hlöðverssyni úr FM Belfast og Prins Póló. Hægt er að lesa sér betur til um hljómsveitina hér.
Blaðamaður Feykis leit við í íþróttahúsinu á Sauðárkróki á þriðjudaginn þar sem allir voru í miklu stuði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.