Lið Kormáks/Hvatar nálgast úrslitakeppni 4. deildar
Lið Kormáks/Hvatar styrkti stöðu sína í B-riðli 4. deildar á miðvikudagskvöldið þegar þeir sóttu lið Álafoss heim á Tungubakkavöll í Mosfellsbæ. Þegar upp var staðið höfðu Húnvetningarnir gert sex mörk en heimamenn náðu ekki koma boltanum í netið – nema reyndar einu sinni í vitlaust mark. Lokatölur því 0-6 og lið Kormáks/Hvatar í öðru sæti riðilsins, stigi á eftir KFR en eiga leik til góða.
Fyrsta markið kom eftir 26. mínútna leik og það gerði markvörður heimamanna í eigið mark. Þá opnuðust flóðgáttir og Oliver Torres bætti við marki fimm mínútum síðar, Viktor Jónsson þriðja markinu á 37. mínútu og Sigurður Aadnegard því fjórða 42. mínútu. Staðan 0-4 í hálfleik.
Viktor gerði fimmta mark Kormáks/Hvatar þegar fimm mínútur voru liðnar af seinni hálfleik og það var síðan Hilmar Kára sem gerði síðasta markið á 68. mínútu.
Kormákur/Hvöt á eftir að spila þrjá leiki í riðlinum en spilaðar eru 12 umferðir. Nú á sunnudag spila kapparnir við Björninn á Fjölnisvelli, þá við lið SR á Eimskipsvelli Þróttara í Reykjavík 4. september og síðasti leikurinn er gegn Stokkseyri á Blönduósi 13. september kl. 16.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.