Lið Ármanns hafði sigur í Síkinu
Síðasti heimaleikur Stólastúlkna í 1. deild kvenna fór fram í kvöld en þá kom lið Ármanns í heimsókn. Leikurinn var jafn lengstum en slök hittni Tindastóls í fjórða leikhluta vóg ansi þungt í lokin þrátt fyrir ágætan varnarleik. Það fór svo að gestirnir að sunnan tóku stigin tvö og unnu, 61-70.
Leikurinn var líflegur í fyrsta leikhluta og liðin skiptust á um að hafa forystuna. Það var þó lið Tindastóls sem hafði yfirhöndina, 18-14, að honum loknum. Gestirnir gerðu fyrstu sex stigin í öðrum leikhluta og þær náðu síðan góðum kafla og eftir þrist frá Jónínu Þórdísi, sem áttu stórleik í kvöld, var munurinn orðinn sjö stig, 24-31. Stólastúlkur klóruðu í bakkann og staðan í hálfleik 31-33.
Lið Ármanns hafði frumkvæðið framan af þriðja leikhluta en körfur frá Evu Wium minnkuðu muninn í tvö stig áður en Katrín Eva jafnaði leikinn, 41-41. Jónina gerði næstu fjögur stig fyrir Ármann en Eva jafnaði á ný, 45-45. Gestunum gekk betur að skora undir lok leikhlutans og munaði þar mestu um flautuþrist frá Viktoríu Líf og lið Ármanns hóf því leik í fjórða leikhluta með fimm stiga forystu, staðan 49-54.
Sannarlega ekki mikill munur en þegar ekkert gengur að skora þá munar um fimm stigin. Þegar fjórar mínútur voru liðnar hafði lið Tindastóls gert tvö stig en gestirnir fimm og munurinn átta stig. Urmull skota fór forgörðum og sérstaklega blæddi undan vítaskotum Stólastúlkna sem fóru í súginn. Það vantaði hins vegar ekkert upp á baráttuna og fráköst Ingu Sólveigar og varin skot gáfu Stólastúlkum von. Bæði Berglind og Inga voru í villuvandræðum og urðu að yfirgefa völlinn áður en yfir lauk. Eva Wium minnkaði muninn í þrjú stig, 61-64, þegar hálf mínúta var eftir en Jónína setti tvö víti niður fyrir gestina þegar 11 sekúndur voru eftir og heimastúlkum tókst ekki að svara – fengu aftur á móti á sig fjögur stig á síðustu sekúndu leiksins og svekkelsis tap því staðreynd.
Jónína Þórdís gerði 31 stig fyrir Ármann í kvöld, tók 11 fráköst og dró vagninn yfir línuna. Í liði Tindastóls var Eva Wium stigahæst með 21 stig, Marín Lind gerði 14 og Berglind 10. Inga Sólveig skaut boltanum lítið en hún hirti 17 fráköst og varði fimm skot. Liðin gerðu nákvæmlega jafnmargar körfur utan af velli, 15 tveggja stiga körfur og sex þriggja stiga körfur í 24 tilraunum. Það var boðið upp á mikið villupartý í kvöld en liðin tóku 66 vítaskot, þar af fengu gestirnir 39 og þó hittni beggja úr vítum hafi verið slök þá settu gestirnir niður níu fleiri víti en lið Tindastóls og það var munurinn á liðunum í leikslok.
Fjögur lið eru nú jöfn í 4.-7. sæti í 1. deild kvenna þegar ein umferð er eftir. Lið Tindastóls mæti Fjölni b í Grafarvogi í síðustu umferð og þá ræðst hvaða lið mætast í úrslitakeppninni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.