Léttir réttir eftir hátíðarnar. Matgæðingar 1. tbl. 2009
Það eru þau Sigríður Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur og Halldór Gunnar Ólafsson framkvæmdastjóri BioPol sem láta okkur fá uppskriftir að þessu sinni. Að þeirra sögn tóku þau þann pól í hæðina að vera ekki með stórsteikur þar sem flestir hafa líklega fengið nóg af þeim að undanförnu. Sigríður og Halldór skora á Helgu Ólínu Aradóttur sérkennara á Skagaströnd að koma með næstu uppskriftir.
Hér á eftir kemur matarmikil súpa ásamt brauði sem passar mjög vel með henni. Síðan kemur eftirréttur í léttari kantinum.
Smábrauð með oregano og osti.
- 5 dl mjólk
- 70 gr smjörlíki
- 8-10 dl hveiti
- 3 tsk oregano
- 4 tsk þurrger
- 1 msk sykur
- 1 tsk salt
- 4 tsk parmesan ostur
Bræðið smjörlíkið í mjólkinni. Blandið saman öllum þurrefnum í skál og látið svo mjólkina og smjörlíkið saman við. Látið hefast. Mótið brauð eða bollur. Penslið með eggjablöndu og bakið við 220°C í ca 10-15 mín. Gott að setja skál með vatni neðst í ofninn meðan brauðið er að bakast.
Haustsúpa (fyrir 8)
- 1,5 kg nautagúllas (eða annað kjöt)
- 8 meðalstórar kartöflur
- 6 gulrætur
- 2-3 laukar
- Rauð og græn paprika
- 1 msk kúmen
- 2-3 msk eftirlæti hafmeyjunnar
- 2 greinar ferskt rósmarin
- pipar og salt eftir smekk
- 2 dósir niðursoðnir tómatar
- 2 dósir tómatpúrra með hvítlauk
- 200 gr hvítlauksrjómaostur
- 1,5 l soð (3-4 teningar nautakraftur og vatn)
- 1 l vatn
Kjötið léttsteikt á pönnu og nr. 1-9 sett í eldfast mót eða leirpott og búinn til lögur úr nr. 10 -14 og hellt yfir. Lok eða álpappír sett yfir pottinn og bakað í ofni við 170°C í 2 klst. Súpan er eins og flestar kjötsúpur enn betri daginn eftir.
Ferskir ávextir með ferskjurjóma
- Ferskir ávextir að eigin vali brytjaðir niður og blandað saman í skál.
- 1 egg og 70 gr sykur hrært saman, 1 dós af ferskjujógúrt sett saman við. Allt þetta er síðan hrært saman við 1 pela af þeyttum rjóma og notað með ávöxtunum.
Verði ykkur að góðu
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.