Leppalúði á leiðinni
Leppalúði er á leiðinni á Norðurlandið og ætlar að troða upp á Hvammstanga og Skagaströnd næstu daga. Það er Kómedíuleikhúsið sem sýnir jólaleikritið um þennan nafntogaða eiginmann Grýlu og segir í kynningu á verkinu að nú loksins fái karlinn að stíga fram í sviðsljósið eftir að hafa staðið í skugganum af konu sinni í árhundruð. Velt er upp spurningum eins og hver Leppalúði sé eiginlega, hvort hann tali mannamál og síðast en ekki síst – hvort hann sé í alvörunni til.
Höfundur verksins og leikari er Elfar Logi Hannesson. Um búninga sér Alda S. Sigurðardóttir, tæknilegar lausnir og galdrar eru í höndum Kristjáns Gunnarssonar og leikmynd og gríma eru sköpunarverk Marsibilar G. Kristjánsdóttur sem einnig er leikstjóri.
Sýnt verður í Félagsheimilinu á Hvammstanga á morgun, miðvikudag 20. nóvember, og í Spákonuhofinu á Skagaströnd fimmtudaginn 21. nóvember. Báðar sýningarnar hefjast klukkan 17:30.
Miða má panta í síma 8917025 og einnig er miðasala á staðnum á sýningardegi. Miðaverð er kr. 2.500.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.