Leikur margra mistaka en sigur þó staðreynd
Tindastóll fékk lið Breiðabliks í heimsókn í Síkið í kvöld og fjölmenntu stuðningsmenn Stólanna á leikinn. Tindastólsmenn náðu fljótlega frumkvæðinu í leiknum en Blikar voru baráttuglaðir og hleyptu heimamönnum ekki of langt framúr. Staðan í hálfleik var 35-27, allt var í járnum í þriðja leikhluta en Stólarnir spiluðu góða vörn í fjórða leikhluta og náðu að laga hittnina og komust mest í 15 stiga forystu. Lokatölur 66-52.
Leikurinn fór ágætlega af stað, bæði lið settu niður 3ja stiga skot en leikklukkan var ekki í miklu stuði og neitaði að gefa upplýsingar um allt nema tímann. Áhorfendur urðu því að hafa sig alla við í upphafi til að reyna að átta sig á stöðunni í leiknum, enda erfiðara að leggja saman í körfunni en fótboltanum. En hvað um það, Stólarnir sigu framúr og höfðu yfir 22-16 eftir fyrsta leikhluta og var Svavar drjúgur í skorinu. Annar leikhluti hófst og klukkan komst í lag. Nú fóru liðin að gera sig sek um að missa boltann trekk í trekk, sendingar voru ónákvæmar og skot geiguðu. Daanish fór að láta meir að sér kveða en hann náði aðeins einu stigi í fyrsta fjórðungi og skotin hjá honum skoppuðu af körfuhringnum. Hann var hins vegar duglegur og stóð sig með ágætum í vörninni. Staðan í hálfleik 35-27.
Tindastólsmönnum gekk afleitlega að finna körfu Blika í upphafi þriðja leikhluta. Raunar settu þeir tvö stig fljótlega en síðan vart söguna meir fyrr en langt var liðið á leikhlutann. Sem betur fer var varnarleikurinn í fínu lagi og Blikum gekk lítið skárr að skora. Þeir minnkuðu muninn í 37-34 og þá loksins hljóp Stólum kapp í kinn og þeir náðu að nýju 8 stiga forystu fyrir síðasta leikhluta. Bæði lið gerðu 9 stig í þriðja leikhluta og heldur betur annar leikur í gangi en þegar KR-ingar voru í heimsókn á dögunum en þá skoruðu menn bara að gamni sínu.
Stólarnir stigu síðan upp í fjórða leikhluta, vörnin small saman og þegar munurinn var orðinn 15 stig og ljóst var að sigur var í sjónmáli kom meiri hraði í leikinn. Blikarnir náðu að klóra muninn niður í 9 stig en nokkur ágæt sóknarfráköst og stig í kjölfarið tryggðu forystuna og Tindastólsmenn gátu kátir fagnað fyrsta sigrinum í Iceland Express deildinni í vetur. Lokatölur sem fyrr segir 66-52.
Fyrir Tindastólsmenn var sigur alveg bráðnauðsynlegur. Leikmenn hafa oft spilað betur í sókninni en baráttan var til staðar í vörninni og ekki kæmi á óvart að nokkrir tilburðir í varnarleik Helga Rafns hafi komið fram á jarðskjálftamælum. Daanish var stigahæstur Tindastólsmanna, setti niður 20 stig og þar af 6 af átta tilraunum af vítalínunni. Hann náði einni troðslu með öllu og var kampakátur. Svavar setti niður 16 stig og hirti 8 fráköst en Helgi Rafn sleit niður 12 bolta. Í liði gestanna var það helst Davis sem sýndi takta en Stólarnir gerðu honum erfitt um vik í síðari hálfleik og öðrum leikmönnum gekk illa taka við keflinu. Góður sigur Tindastólsmanna því staðreynd.
Stig Tindastóls: Daanish 20, Svavar 16, Giovacchini 10, Helgi Rafn 6, Axel 5, Rikki 4, Sveinbjörn 3 og Sigmar 2.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.