Leik Stólastúlkna flýtt um 90 mínútur vegna veðurs
Kvennalið Tindastóls fær Skagastúlkur í heimsókn í dag, laugardag, og hefur leikurinn verið færður fram um 90 mínútum þar sem veðurspáin var slæm. Í stað þess að leikurinn hefjist kl. 14:00 hefst hann því kl. 12:30.
Um miðjan dag í gær var gert ráð fyrir suðvestan 17-18 metrum á sekúndu og hellidembu meðan leikurinn færi fram. Að sjálfsögðu breyttist spáin um leið og leiknum var flýtt og nú er engin rigning í kortum dagsins, sól og hiti tæpar 10 gráður en það stefnir í hvassviðri.
Lið Keflavíkur vann sinn leik í gærkvöldi og er nú einu stigi á eftir toppliði Tindastóls. Með sigri á Skagastúlkum verður sæti í efstu deild í seilingarfjarlægð. Skundum á völlinn og styðjum stelpurnar til sigurs. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.