Leiðir skilja :: Leiðari Feykis
Það hefur ekki farið framhjá mörgum að fjölmiðlar landsins berjast í bökkum í sí harðnandi rekstrarumhverfi. Veitist það mörgum erfitt og hafa þeir týnt tölunni síðustu misseri. Pappírsfjölmiðlar eru fáir og bjartsýnustu menn að verða svartsýnir á framtíð þeirra. Margt er tínt til þegar ástæðna er leitað og flest allt gott og gilt.
Frá því að ég hóf störf á Feyki fyrir 15 árum, eða árið 2008, hefur margt breyst í heimi fjölmiðlunar. Eins og áður segir hefur pappírsmiðlum fækkað, í einhverjum tilvikum skipt um eigendur eða nafn, aðrir komið og fyllt upp í skarðið í einhvern tíma en netmiðlar í meira mæli rutt sér til rúms og sjá um mikilvæga upplýsingaþjónustu. Nægt er framboðið og mörg afþreyingin aðgengileg á öllum þeim streymisveitum sem í boði eru á Alnetinu, eins og það var kallað hér áður fyrr.
Nú er það svo að Mogginn er eina dagblað landsins eftir að Fréttablaðið hætti starfsemi. Líklega fáum ekki að vita hvernig gangi að gefa Fréttablaðið út í áskrift. Stjórnendur ákváðu að hætta útgáfu áður en sá möguleiki var kannaður annars staðar en á Excelskjali. Fólk var ekki nógu ákaft í að sækja sér blað á dreifingastaði þrátt fyrir að frítt væri. Hafa stjórnendur líklega séð að erfitt myndi reynast að tryggja sér fasta áskrifendur sem væri undirstaða útgáfu blaðsins.
Margir sjá á eftir Fréttablaðinu enda ætlað sem mótvægi við Moggann, sem ekki lætur deigan síga. Mér, sem útburðardreng Moggans í neðri bænum á Króknum, sýnist að áskrifendafjöldi blaðsins sé í þokkalegu jafnvægi á milli missera en fækkar helst vegna hás aldurs áskrifenda sem ýmist missa lestrarsjón eða hafa kvatt þetta jarðlíf. Sama má segja um Feyki. Sem betur fer hefur undirritaður ekki skandalíserað svo mjög að það hafi kostað hópuppsögn á Feyki, en að sjálfsögðu einhverjir óánægðir kastað áskriftinni fyrir róða.
En vilji fólk hafa svæðisfréttablað verða allir að leggjast á árar, gerast áskrifendur og ekki síst að leggja blaðinu til efni þegar þannig stendur á. Einn blaðamaður á sín lítils í þessu starfi.
Innan skamms verða breytingar á Feyki þar sem ég hef ákveðið að söðla um og skipta um starf. Hvað eigendur Feykis ákveða að gera í kjölfarið veit ég ekki en trúi því að þeir haldi útgáfunni áfram og ráði nýjan og ferskan ritstjóra. Ég trúi því líka að lesendur blaðsins séu tilbúnir í slaginn og vona að áhugasamir muni hafa samband og gerast áskrifendur. Þá kvíði ég ekki framtíð Feykis.
Góðar stundir!
Páll Friðriksson, ritstjóri
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.