Leiðbeinanda vikið frá störfum eftir að 30 börn máttu þola ofbeldi í skólabúðum
Á síðasta ári tók Ungmennafélag Íslands við rekstri Skólabúðanna á Reykjum í Hrútafirði. Á heimasíðu UMFÍ segir að í búðunum fái „...nemendur tækifæri til þess að efla leiðtogahæfni og sjálfsmynd sína og vinna með styrkleika og veikleika til þess að bæta félagsfærni sína.“ Nú fyrir helgi sagði RÚV frá því að hópur tólf til þrettán ára nemenda hafi þurft að þola ofbeldi í búðunum í síðustu viku og hafi leiðbeinanda í framhaldinu verið sagt upp störfum og börnunum boðin sálræn aðstoð.
„Um miðja síðustu viku voru þrjátíu börn úr sjöunda bekk í skóla í Kópavogi í kennslustund í Skólabúðum Ungmennafélags Íslands að Reykjum í Hrútafirði. Þar átti að valdefla börnin en börnin voru í uppnámi eftir kennslustundina. Í bréfi sem Kópavogsbær sendi foreldrum segir að starfsmaður búðanna hafi rætt við nemendur á óviðeigandi hátt og sýnt af sér óviðunandi framkomu,“ segir í frétt á Rúv.is. Leiðbeinandinn hafði, eftir því sem fram hefur komið í fréttum, m.a. kennt börnunum aðferðir við að taka eigið líf. Í tilkynningu á vef UMFÍ segir að samkvæmt þeim upplýsingum sem nú liggja [fyrir] er ljóst að það sem fram fór var ekki í samræmi við kennsluáætlun eða þær áherslur sem ungmennafélagshreyfingin hefur að leiðarljósi í sínu starfi.“
Tilkynningin á vef UMFÍ er á þessa leið: „Í síðustu viku kom upp atvik í kennslustund í Skólabúðunum í Reykjaskóla þar sem nemendur í 7. bekk dvöldu.
UMFÍ hefur í samráði við skólann sem um ræðir unnið að því að draga fram skýra mynd af því sem átti sér stað í kennslustundinni. Af þeim upplýsingum sem nú liggja er ljóst að það sem fram fór var ekki í samræmi við kennsluáætlun eða þær áherslur sem ungmennafélagshreyfingin hefur að leiðarljósi í sínu starfi.
Í framhaldi af samtölum við kennara í umræddum skóla var rætt við leiðbeinandann og í kjölfarið var viðbragðsáætlun virkjuð. UMFÍ vinnur málið eftir samræmdum verkferlum samskiptaráðgjafa í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Í samræmi við áætlunina var viðkomandi leiðbeinandi látinn yfirgefa svæðið og hefur hann látið af störfum hjá Skólabúðum UMFÍ.
UMFÍ hefur verið í samskiptum við skólastjórnendur og viðkomandi sveitarfélög og unnið málið með þeim áfram.“
Framkvæmdastjóri UMFÍ, Auður Inga Þorsteinsdóttir, sagði í fréttatíma Sjónvarps í gær, að málið væri félaginu þungbært og rýri traust til UMFÍ.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.