Látum rödd okkar heyrast!
Nú þega hátíð ljóss og friðar er liðin hjá og nýtt ár gengið í garð er tími til komin að halda áfram að vekja athygli á þeirri hörmulegu stefnu sem þessi ríkistjórn fylgir, þ.e. að ganga að velferðar og heilbrigðiskerfinu dauðu. Margt hefur betur mátt fara á undanförnum árum og full ástæða til að leyta leiða til að hagræða og ná fram betri og skilvirkari rekstri, en fyrr má nú rota en dauðrota. Það er komin tími til að halda áfram að mótmæla niðurskurði innan heilbrigðiskerfisins eins og við lofuðum heilbrigðisráðherra á síðasta ári.
Eins og kom fram í haust, þá hafa fjárframlög til HSB verið skert verulega umfram sambærilegar stofnanir. Þetta er gert þrátt fyrir það að á liðnum árum hafir farið fram stöðug vinna við að endurskipuleggja og skera niður allt sem hægt var og þrátt fyrir að HSB hafi ekki farið fram úr fjárframlögum.
Þessi niðurskurður fer fram hér eins og á öðrum stofnunum þrátt fyrir mikilar hækkanir á nokkurn vegin öllu sem snýr að rekstri heilbrigðisstofnunnar, ja nema auðvitað launum!!
Hér er stjórnendum heilbrigðisstofnanna stillt upp við vegg með niðurskurðarhnífinn við hálsinn, sem hlýtur að þurfa brýna daglega miðað við notkun. En á meðan þessum niðurskurði stendur heyrist það að heibrigðisráðuneytið hafi fengið úthlutað aukafjárframlagi, nokkrum milljónum, en slær svo skjaldborg um ráðuneytið og ástæðu fjárframlags og engin leið að fá upplýsingar um, í hvað þessi auka fjárframlög eru ætluð. Átti ekki að slá skjaldborg um heimilin?! Spurning hvort Jóhanna og Steingrímur fái ekki leiðbeiningar hjá Álfheiði um það hvaða leiðir séu bestar og slái svo skjaldborg upp þar sem hennar er þörf.
Fyrir stuttu tilkynnti heilbrigðisráðherra, að ekki ætti að segja upp starfsfólki, það væri ekki sparnaður. Samt sem áður er starfsfólki sagt upp hér vegna þessa, og sjúkrarúmmum fækkað, það er ekki önnur leið fær og endar sjálfsagt með því að þegar þörf verður á að fjölga menntuðu heilbrigðisstarfsfólki, þá verða engir eftir í landinu, allir löngu búnir að gefast upp, því eins og fram hefur komið í fréttum eru meiri vonir vinnu erlendis þar sem boðið er upp á mannsæmandi laun og þar sem hægt er að framfleyta fjölskyldu, og þetta gerir fólk þrátt fyrir yfirlýsingar heilbrigðisráðherra, þar sem hann segist treysta því að t.d. læknar leggji sitt af mörkum til að Ísland komist út úr kreppunni. Það má þá sennilega láta það fólk sem þegar er flutt úr landi í leit að mannsæmandi lífi, heyra það, því það á að sjálfsögðu eins og læknar að leggja sitt af mörkum til að koma okkur úr þeirri kreppu sem við nú erum í, en áttum minnstan þátt í að koma okkur í.
Hún heyrist ekki lengur auglýsingin: Búum öldruðum áhyggjulaust ævikvöld, svo dæmi sé tekið, enda á hún ekki við lengur. Það er ekkert lengur í boði þetta áhyggjulausa ævikvöld. Hér situr þetta eldra fólk í þeirri trú að ef veikindi ber að höndum þá eigi það greiðan aðgang að sjúkrahúsinu og þeirri þjónustu sem það þarf og á rétt á lögum samkvæmt og þá ekki síst vegna þess að það er búið að leggja sitt að mörkum til að svo sé. En ef fólk tekur upp á því að veikjast verður það að fara á Akureyri eða hreinlega láta sé batna. Sama er á döfinni með fæðingar. Nýjasta hugmyndin er sú að eingöngu verði boðið upp á fæðingarhjálp í Reykjavík eða á Akureyri. Sennilega hefur það verið vitleysa að rífa sæluhúsin á sínum tíma, sem hér voru einu sinni á heiðunum sitt hvoru megin við okkur, ef blessuð börnin ákvæðu nú að flýta sér í heiminn eins og stundum vill verða, svo foreldrar hefðu þá eitthvað athvarf ef til kæmi.
Ef þessi pistill gefur til kynna að ég sé svartsýn á stöðu mála, þá er það rétt, ég hef miklar áhyggjur af því, hvert stefnir. Það hefur ekki farið fram hjá mér frekar en öðrum það efnahagsástand sem hér ríkir, en ég tel að meiri niðurskurður innan heilbrigðiskerfisins skapi hér meira hættuástand en flestir gera sér grein fyrir og átta sig sennilega ekki á fyrr en á reynir. Samkvæmt úttekt sem landlæknisembættið gerði á álagi á sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum Landspítalans, kom fram að stöðuleiki væri í mönnun þessa starfshóps og ekki greinanlegt meira álag þrátt fyrir meiri umönnun. Nú þegar hefur 70 manns verið sagt upp þar og fyrirsjáanlegt að segja þurfi upp 200 til viðbótar! Eigum við svo að trúa því að álag á þá sem eftir eru sé ekki meira og að þjónusta skerðist ekki?
Það er alveg ljóst að ef við látum ekki í okkur heyra þá breytist ekkert. Það má ekki gleymast að þessi ríkistjórn á að vera að vinna fyrir okkur, tryggja okkar hag og ef við gerum ekki athugasemdir við það sem við teljum betur mega fara þá verðum við að líta í eigin barm og velta því fyrir okkur hvað vald við höfum og hvort við ætlum að nýta það og þá í hvað, því vald okkar og réttur er þónokkuð, bara ef við stöndum saman. Það hefur sýnt sig að friðsamleg mótmæli borga sig og skila árangri, sjálfur heilbrigðisráðherra mælir með þeim og segir þau virka og það hefur sýnt sig að þegar okkur er nóg boðið, þá getum við breytt þróun mála. Því hvet ég alla til að kynna sér málin og láta í sér heyra svo skoðanir þess komist á framfæri.
Við megum ekki láta þagga niður í okkur.
Baráttukveðja
F.h. undirskrftarhópsins á Blönduósi
Bóthildur Halldórsdóttir
Starfsmaður þvottahúss HSB.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.