Lambalærisneiðar í tómatsoði í forrétt og humarsúpa í eftirrétt

Þessa vikuna eru það Hilmar Frímannsson vélsmíðameistari hjá Vélsmiðju Alla á Blönduósi og Sigurlaug Markúsdóttir heilbrigðisritari á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi sem töfra fram dýrindis uppskriftir en þau voru matgæðingar Feykis fyrir sléttum þremur árum.

Aðalréttur:

  • Lambalærisneiðar í tómatsoði:
  • 4 stk lambalærisneiðar. (ca 4x 200 gr).
  • 1 stk gulrót
  • 2 stk sellerístönglar stórir
  • 2 stk lárviðarlauf

Aðferð:
Skera gulrót og sellerí í stóra bita. Setja lærisneiðar í pott og láta kalt vatn renna eins og 2 cm yfir kjötið láta úti gulrót,sellerí og lárviðarlauf og sjóða við vægan hita í 1 ½ klst

Tómatsoð:

  • 4 stk skalottlaukar
  • 2 stk gulrætur
  • ½ dl ólífuolía
  • 2 stk stórir rósmarínkvistir
  • 1 ½ dl rauðvín
  • 1 dós maukaðir tómatar (500gr)
  • 4 stk plómutómatar
  • 20 gr sykur
  • 3 tesk  blandaðar ferskar kryddjurtir
  • Salt og svartur pipar úr kvörn.

Aðferð:
Afhýðið og skerið skalottlauka í grófa bita, flysjið gulrætur og skerið gróft. Hitið olíuna í potti og mýkið gulrætur, skalottlauk og rósmarín. Hellið rauðvíni yfir og sjóðið niður um helming.  Bætið tómötum úr dós saman við ásamt sykri og sjóðið í 20 mín.  Sjóðið vatn í potti. Skerið burt holuna eftir stilkinn á tómötunum og ristið kross á hinn endann.  Setjið tómatana í sjóðandi vatnið í um 10 sek. og síðan strax í kalt vatn með ísmolum. Afhýðið tómatana og skerið hvern tómat í 4 báta, fjarlægið kjarna og skerið bátana í tvennt.  Saxið kryddjurtirnar.  Takið kjötið upp úr soðinu og setjið í heitt tómatsoðið.  Bætið 3 dl af kjötsoði, plómutómötum og kryddjurtum út í. Smakkið til með salti og svörtum pipar úr kvörn.

Humarsúpa.

  • 50 gr smjör
  • 1 stk laukur stór, smátt skorinn
  • 2 stk gulrætur stórar smátt skornar
  • 5 dl vatn
  • 5 dl hvítvín
  • 1-2  hvítl. rif, pressuð (má sleppa)
  • 2  dl kjúklingasoð
  • 1 msk tómatpúrra
  • 2 dl rjómi
  • Salt eftir þörfum
  • Slatti af humar.

Aðferð: Hreinsið humarinn úr skelinni og brjótið hana í sundur (gott að nota buffhamar). Bræðið smjörið í potti yfir meðalhita og bætið út í: gulrótum, lauk, hvítlauk og humarskelinni. Látið krauma í 10 mín, hrærið af og til. Bætið svo vatni, víni og hvítlauk saman við, látið suðuna koma upp. Lækkið þá hitann og sjóðið við vægan hita í 30 mín. Látið mesta hitann rjúka úr soðinu.  Hellið soðinu í hreinan pott í gegnum sigti , lagt að innan með grisju. Hellið því næst kjúklingasoðinu, tómatmaukinu og rjómanum í pottinn saman við og hrærið vel og látið súpuna hitna vel. „Gott er að sjóða humarinn  þannig að suðan rétt komi upp og setja hann síðan saman við súpuna“, það má gera degi áður.

Verði ykkur að góðu

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir