Lambalæri, helst af heimaslátruðu
Það eru þau Auður Björk Birgisdóttir og Rúnar Páll Hreinsson bændur á Grindum í Deildardal sem eiga uppskriftir vikunnar að þessu sinni. -Að loknum sauðburði er gott að verðlauna sig með smá veislu eftir vökunætur og slitróttan svefn síðastliðinn mánuð, sögðu þau þegar uppskriftin birtist fyrst í Feyki árið 2010.
Forréttur
Lauksúpa Geira spræka
- 15 gr smjör
- 3-4 laukar
- 2 hvítlauksgeirar
- ½ dl hvítvín
- 1 tsk tómatpúrra
- 1 lárviðarlauf
- ½ tsk timian
- ½ tsk svartur pipar
- ½ tsk salt
- 1 ltr kjötsoð/vatn og kjötkraftur
Grófsaxið laukinn og hitið hann í smjöri, kraumið hann ekki, bætið hvítlauk og kryddinu út í og hellið síðan soðinu saman við ásamt hvítvíninu. Látið sjóða í 30 mín. Ofan á hverja súpuskál er sett ristuð brauðsneið með osti og er súpuskálin sett í ofn við 250°C þar til ostur er fallega gylltur.
Aðalréttur
Fyllt lambalæri (helst af heimaslátruðu)
Beint á grillið eða í ofninn
- 1 stk skagfirskt læri, úrbeinað
- 100 gr fetaostur (grófmulinn)
- 3 msk ristaðar furuhnetur
- 3 msk rautt pestó
- 3 hvítlauksgeirar
- ½ tsk rósmarín
- ½ tsk basilikum
Þessu er blandað saman og smurt inn í lærið, rúllað upp og lokað með kjötpinnum. Kryddað vel að utan með salti og pipar.
Steikt í ofni: Sett á grind og snúið 1x. Steikt í u.þ.b. einn og hálfan tíma við 180-200°C
Grillað: Hita grillið vel, grillað í u.þ.b. eina klukkustund, snúið á ca 15 mín. Fresti. Lærið látið standa í ca 10-15 mín. áður en það er skorið.
Gott með bökuðum kartöflum, maísstönglum og fersku grænmeti með ristuðum furuhnetum.
Eftirréttur
Essin þrjú-súkkulaðibomba sem tekur enga stund ef gesti ber að garði.
200gr smjör, sykur, súkkulaði – sett í pott og brætt við vægan hita. Tekið af hellunni, látið kólna smástund ef maður hefur þolinmæði.
- 4 egg sett út í ásamt 100gr hveiti.
- Sett í eldfast mót og bakað við 200°c í 15 mín.
- Ps á að vera lin. Frábær með ís og ávöxtum að eigin vali.
Verði ykkur að góðu!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.