Lambakjöt í aðalrétt og eftirrétturinn góð tilbreyting
Það voru sauðfjárbændur á Ytra-Hóli I í Skagabyggð sem buðu upp á ljúffengar uppskriftir í Feyki fyrir þremur árum. Auk þess að vera bændur hafa þau hjón annan starfa utan búsins en Björn Björnsson er kjötmatsmaður hjá SAH Afurðum á Blönduósi og Dagný Rósa Úlfarsdóttir er kennari í Höfðaskóla á Skagaströnd.
Aðalréttur:
Fyllt lambalæri
- 1 meðalstórt lambalæri, úrbeinað
- 4 meðalstórir sveppir, smátt skornir
- 5 cm blaðlaukur, smátt skorinn
- 1 msk olía
- ½ dl þurrkuð epli, söxuð
- ½ piparostur í litlum bitum
- 3 msk rjómaostur með pipar
- salt eftir smekk
- piparblanda eftir smekk
Steikið sveppina og blaðlaukinn í olíu á pönnu og blandið eplum saman við. Passið að steikja ekki of lengi. Saltið og setjið ostana saman við og hitið án þess þó að bræða piparostinn. Smyrjið fyllingunni inní lærið, rúllið því þétt upp og bindið helst saman þannig að osturinn geti ekki lekið út. Kryddið lærið með salti og piparblöndu. Steikið í ofni við 170°C í 1-1½ klst., allt eftir því hvernig þið viljið hafa kjötið steikt. Berið fram með góðu salati, bökuðum kartöflubátum og piparsósu.
Bakaðir kartöflubátar
- 1 kg kartöflur, skornar í báta og mega vera með hýði
- 2-3 msk olía
- 1 msk rósmarín
- 1 tsk svartur grófur pipar
- 1 msk sjávarsalt
Kartöflurnar skornar í báta og settar í eldfast mót. Olíunni og kryddinu hellt yfir og kartöflunum velt upp úr blöndunni, þannig að krydd og olía sé á öllum bátunum. Steikt í ofni við 170°C í 40-50 mín., fer allt eftir stærð bátanna.
Piparsósa
- ½ piparostur
- 1 dós rjómaostur með pipar
- 1 peli kaffirjómi
- mjólk eftir smekk
Bræðið ostana í rjómanum og þynnið með mjólk eftir smekk.
Eftirréttur:
Fylltar pönnukökur með súkkulaðisósu
- Pönnukökur (um 10 stk.):
- 150 g hveiti
- 1 egg
- ca. 3 dl mjólk
- ½ msk smjör, brætt
- ½ tsk lyftiduft
- ½ msk sykur
- ½ tsk vanilludropar
Setjið allt nema smjörið og mjólkina í skál. Helmingnum af mjólkinni hellt saman við og unnið þar til kekkjalaust, þá er afganginum af mjólkinni blandað rólega saman við og að síðustu er brædda smjörinu hellt út í. Steikið venjulegar pönnukökur og kælið þær.
Fylling í pönnukökurnar:
- 1 peli þeyttur rjómi
- 1 askja jarðarber
- 1 askja hindber
- 1 dl bláber
- ½ marengsbotn, mulinn eða ½ -1 poki Nóakropp.
Öllu í fyllinguna blandað saman og sett inn í kaldar pönnukökurnar. Látið standa í 1-2 klst.
Sósa:
- 100 g 70% súkkulaði
- 1 dl rjómi
Súkkulaðið og rjóminn sett í pott og brætt saman við vægan hita. Berið fram með pönnukökunum.
------
Þessar bananakökur eru mjög vinsælar hjá fjölskyldunni og henta einstaklega vel þegar til eru bananar sem eru of brúnir til að hægt sé að borða þá.
Bananamuffins
- 4 vel þroskaðir bananar (helst mjög brúnir)
- 250 g hveiti
- 1 ½ tsk lyftiduft
- ¼ tsk salt
- 75 g súkkulaðibitar
- 1 dl olía
- 150 g púðursykur
- 2 egg
- 1 tsk vanilludropar
Aðferð:
Bananar stappaðir mjög vel og öllu blandað saman í skál og hrært saman með sleif. Sett í stór muffinsform og bakað við 200°C í 20-25 mínútur. Að lokum er svo uppskrift af hafraklöttum sem henta mjög vel með kaffibollanum.
Hafraklattar
- 110 g smjörlíki, lint
- 110 g hrásykur
- 160 g hveiti
- 150 g gróft haframjöl
- 100 g súkkulaðibitar
- 1 egg
- ½ tsk vanilludropar
- örlítið salt
- ½ tsk lyftiduft
- ½ tsk natron
Allt sett í hrærivélaskál og hnoðað saman. Búnar til litlar kúlur og þrýst fast á plötu. Bakað á 180°C með blæstri í um 15 mínútur.
Verði ykkur að góðu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.