Kynni af öðrum menningarheimum eru dýrmætt veganesti út í lífið
Eftir að hafa boðið lesendum Feykis í menningarreisu til Hugrúnar Önnu í Verónu á Ítalíu í febrúar þá tekur Feykir undir sig stökk til norðausturs og snögghemlar í Austur-Evrópu. Nánar tiltekið í austurhluta gömlu Tékkóslóvakíu, sem flestir lesendur Feykis ættu að kannast við, en í kjölfar þess að halla fór undan fótum Sóvétríkjanna þá sluppu ríki Austur-Evrópu undan járnhælnum. Flauelsbyltingin var gerð friðsamlega í Tékkóslóvakíu 1989 og til urðu Tékkland (ekki skoðunarstöðin) og Slóvakía og það er einmitt í síðarnefnda landinu sem parið Kolbrún Sonja Rúnarsdóttir og Ófeigur Númi Halldórsson stundar nú nám í borginni Košice.
Þau eru bæði ung og hress, fædd á því herrans ári 2000. Kolbrún, sem er læknanemi, stundar nám við Univerzita Pavla Jozefa Šafárika, sem er stór háskóli með nemendur frá ríflega 50 löndum. Hún er Króksari, dóttir Sólveigar Bergland Fjólmundsdóttur, sem var alin upp á Hofsósi, og Rúnars Skarphéðins Símonarsonar, gröfukappa, Gilsara og Króksara. Númi aftur á móti stundar nám til BA-gráðu í nútímafræðum í fjarnámi frá Háskólanum á Akureyri. Hann er uppalinn á bændabýlinu Molastöðum í Fljótum, sonur Fljótadömunnar Maríu Þórunnar Númadóttur og Breiðhyltsingsins Halldórs Gunnars Hálfdanssonar sem hlýtur eiginlega að hafa verið Fljótamaður í fyrra lífi.
Slóvakía á ekki land að hafi og er að mestu fjalllent í mið og norðurhluta landsins. Íbúar eru um fimm og hálf milljón og eru flestir Slóvakar að uppruna. Bratislava er höfuðborg landsins en þar búa um 420 þúsund manns. Košice, þar sem Kolbrún og Númi dvelja, er næststærsta borg Slóvakíu með um 230 þúsund íbúa og staðsett austanmegin í landinu, stutt frá landamærum Ungverjalands. Košice stendur við ána Hornád við austurenda Slóvakísku málmfjallanna, á mörkun Karpatafjalla og Pannónísku sléttunnar.
Þegar þau setjast niður til að svara spurningum Feykis eru þau nýlent í Slóvakíu eftir vinnutímabil beggja heima á Íslandi. Kolbrún á Landspítalanum og Númi í grunnskólanum á Hofsósi. „Nú tekur við hin heilaga rútína eftir að við erum búin að sækja hundinn í pössun þar sem hann dvelur hjá dásamlegri fósturfjölskyldu sinni meðan við erum heima á Íslandi,“ segir Kolbrún.
Hvenær og hvernig kom það til að þið fóruð til Slóvakíu og hvað eruð þið að gera? „Það var alltaf á planinu hjá mér að prufa að búa erlendis ásamt því að læra læknisfræði og það á ensku,“ svarar Kolbrún. „Við Númi verðum par í byrjun menntaskóla (2016) og leist okkur báðum vel á það að fara út í framhaldinu. Ég var svo ákveðin að læra úti að ég þreytti aldrei inntökupróf í læknisfræðina í HÍ. Rétt fyrir útskriftarferð okkar með Menntaskólanum á Akureyri til Krítar tók ég inntökupróf bæði í skóla í Ungverjalandi og í Slóvakíu. Niðurstaðan varð svo sú að ég gat valið á milli skólanna og varð þá Slóvakía fyrir valinu. Við fluttum þá í bæ sem heitir Martin en náðum ekki nema einni önn áður en heimsfaraldurinn frægi skall á.“
Košice afar nútímaleg
Kolbrún segir að staðan sé nú reyndar töluvert breytt frá því að þau fluttu fyrst út. „Eftir Covid höfum við fengið okkur hund, flutt okkur um borg og ég skipt um skóla en við búum nú í Košice sem er töluvert mikið stærri en Martin, þar sem við bjuggum áður. Til að gera afar langa sögu stutta þá, eins dásamlegt og lífið gat verið þar, fannst mér persónulega kennslan í Martin ekki alveg uppfylla þær kröfur sem ég hafði og fannst mér ég oftar en ekki bara vera númer í kerfinu og skólinn lítið koma til móts við okkur og horfast í augu við þá staðreynd að við hefðum verið að kenna sjálfum okkur læknisfræði ein – á netinu – í tvö ár. Margir í vinnu með til að geta greitt fulla leigu erlendis og halda sér uppi í sínu heimalandi. Við fundum einnig bæði að þrátt fyrir að það væri voðalega þægilegt að hafa gott bakland af íslenskum vinum, þá fannst okkur við svolítið vera flutt aftur heim í lítið samfélag en langt frá fjölskyldum okkar. Þetta var ekki þessi útlenski draumur sem við bæði höfðum viljað prufa að upplifa,“ segir Kolbrún og bendir á að það má nefnilega alltaf skipta um skoðun. „Við erum bæði svo ótrúlega heppin að hafa stuðningsríkt bakland, svo við fluttum okkur yfir. Við unum okkur mjög vel hérna í nýja heima og borgin finnst okkur æðisleg. Skólinn hér er að henta mér mun betur og hefur mér hingað til gengið ótrúlega vel, enda erum við litla fjölskyldan að njóta okkar í botn. Jafnframt er ég eini Íslendingurinn í læknadeildinni og eftir því sem ég best veit, í öllum skólanum, en hér eru þó fleiri háskólar. Það er til að mynda háskóli með dýralæknanám sem fer fram á ensku og þar er að finna góðan hóp af Íslendingum, þar af nokkrir vinir okkar, sem við reynum að hitta þegar tækifæri gefst.
Venjulegur dagur hjá þeim hefst yfirleitt með því að ræs er um klukkan hálf sjö á morgnana og Kolbrún mætir í skólann eða á sjúkrahúsið, sem er samtengt skólanum, rétt fyrir klukkan átta. Þá annað hvort til þess að mæta í fyrirlestur eða í klíníska tíma. „Númi byrjar daginn á því að fá sér kaffibolla, glóðvolgan úr George Clooney vélinni okkar (Nespresso), og fer svo með Sunny (hundinn) í göngutúr eða í garðinn að leika áður en hann fer að sinna lokaritgerðinni sinni. Númi fer einu sinni á dag í Crossfit stöð en þar er dásamlegt samfélag af alls konar fólki og Sunny er velkominn með – sem honum finnst klárlega vera besti partur dagsins. Við reynum að fara öll saman nokkra daga í viku. Síðan þurfum við jú að nærast og þá eldum við kvöldmat og reynum að eiga kvöldin í slökun ef hægt er,“ segir Kolbrún.
Hvað hefur komið ykkur mest á óvart við að búa í Slóvakíu? „Fyrir mér var það fjölbreytt þjóðarsaga Slóvakíu,“ svarar Númi. „Það eru menningararfleifar út um allt sem allar segja sína sögu frá mismunandi tímum. Kastalar frá miðöldum hanga víðsvegar í klettum og ónýt mannvirki frá tímum Sovíetríkjanna leynast út um allt. Allt mjög spennandi fyrir sagnfræðinörd eins og mig. Annars finnst okkur Košice afar nútímaleg, bæði þegar kemur að skólanum hennar Kolbrúnar sem og arkítektúr borgarinnar, svona í samanburði við restina af Slóvakíu. Hér er fjöldinn allur af fallegum kirkjum og gömlum köstulum sem búið er að gera upp.“
Hverjir eru kostirnir við að taka lækninn í Slóvakíu/búa í Slóvakíu, Kolbrún? „Helstu kostirnir við að búa í Slóvakíu eru fyrst og fremst reynslan af því að vera erlendis, sérstaklega þar sem maður lendir reglulega í aðstæðum þar sem maður þarf bara að redda sér, sökum tungumálaörðugleika – en það tala alls ekki allir Slóvakar ensku. Hér er líka frekar ódýrt að búa en það er þó fljótt að telja, enda langt ferðalag heim sem getur orðið frekar dýrt, ásamt því að skólagjöldin eru mjög há. Annars var bara virkilega þroskandi fyrir okkur bæði að stökkva í djúpu laugina 19 ára gömul,“ segir Kolbrún og bætir við: „Varðandi námið, þá fer það fram á ensku sem nýtist manni alls staðar í heiminum, bæði varðandi framhaldsnám sem og daglegt líf. Einnig koma nemendur skólans frá öllum heimshornum og öðlast maður því bæði virðingu og skilning á öðrum menningarheimum sem er að mínu mati afar dýrmætt veganesti út í lífið.“
Kolbrún, hvers vegna að fara í lækninn, var það draumurinn þegar þú varst lítil að verða læknir? „Þeir sem þekkja mig vel vita að það kom í raun aldrei neitt annað til greina. Nema kannski það að verða bleik prinsessa – en ég held að ég geti nú alveg gert bæði.“
Hvernig læknir ætlar þú að verða? „Þetta er spurning sem ég fæ reglulega en það er engin leið að vita svarið við því eins og staðan er núna – það er svo margt sem ég á eftir að prófa. Í augnablikinu hrífst ég mikið að barnabæklunarlækningum en ég vann síðastliðið sumar á Landsspítalanum í Fossvogi á göngudeild bæklunarskurðlækninga. Þar fékk ég góða innsýn í hvernig það er að starfa sem bæklunarlæknir. Í sumar mun ég svo koma til með að starfa sem læknanemi á vöktum á öldrunarlækningadeild Landspítala og er ég mjög spennt fyrir þeirri reynslu.“
Góð leið til að víkka sjóndeildarhringinn
En Númi; hvernig gengur að búa í Slóvakíu og vera í fjarnámi í nútímafræði í HA? „Áður en við lögðum af stað í þetta ævintýri hafði ég velt því mikið fyrir mér hvernig væri að búa erlendis í fjarnámi frá Íslandi en ég kann í dag virkilega vel við mig hérna úti. Hvað varðar að stunda fjarnám, þá má segja að það hafi komið sér virkilega vel fyrir mig hversu sveigjanlegur Háskólinn á Akureyri er. Ég bjóst ekki við þessari skóla tilfinningu í byrjun en í dag er hún svo sannarlega til staðar. Að öðru leyti þá hafa helstu vandkvæðin verið að þurfa mæta í staðbundnar lotur í háskólanum um miðja önn hvers skólaárs – sem ég hef aldrei gert sem hljómar eflaust út í hött. Ég hóf mitt nám á tímum Covid-faraldurins þannig ég slapp fyrir horn upp á mætinguna að gera. Einnig er alls ekki ódýrt að fljúga milli heimshluta fyrir 3-4 kulukkustunda kennslu á skólabekk á Akureyri. Sem betur fer hefur HA boðið upp á önnur úrræði í þessum málum. Helstu kostir þess að vera í HA er að flest námskeið eru algjörlega rafræn. Það er að segja fyrirlestrar og allt námsefni er aðgengilegt í gegnum tölvu. Svo má ekki gleyma Zoom þar sem hægt er að sitja fyrir framan tölvuna í fyrirlestrum ásamt því að vinna hópaverkefni með öðrum. Ég er svo sannarlega háður tækninni í þessum málum.“
Hvað er nútímafræði og hvernig nýtist það nám? „Þetta er spurning sem ég fæ mjög gjarnan en nútímafræði er þverfaglegt nám þar sem rýnt er í mismunandi sögulega þætti og hugmyndafræði til að fræðast um aðdragandann á núverandi ástandi heimsins. Það má í raun skilgreina þetta nám sem sameiningu á sagnfræði, siðfræði, samfélagsgreinum og heimspeki. Á ensku kallast þetta modern studies. Í stuttu máli er þetta virkilega góð leið til að víkka sjóndeildarhringinn og þekkingarsviðið á heiminum. Helsta ástæðan fyrir því að ég hóf þetta nám var sú að mig langar að gerast kennari en grunnnámið í kennslufræðum heillaði mig ekki jafn mikið og nútímafræðin.
Var eitthvað sem var erfitt að venjast í Slóvakíu? „Það tala flestir í Košice ágæta ensku, einn og einn sem þarf að beita Google Translate á. Sjálfur kann ég mjög takmarkaða Slóvakísku, en Kolbrún lærði Slóvakísku fyrstu tvö árin í skólanum en beindist það þó aðallega að klíníska hlutanum til að geta átt samskipti við sjúklinga. Mér finnst þó alltaf jafn gaman að heilsa fólki á þeirra tungumáli. Þegar við bjuggum í Martin fannst okkur báðum tungumálaörðugleikarnir vera mun meira áberandi,“ segir Númi.
Hvað telst vera sér slóveskt gúrme? „Þeir elska kindaost mest af öllu og er hann talinn vera afar heilagur.“
Þekkja Slóvakar eitthvað til Íslands? „Já heldur betur,“ svarar Númi. „Margir sem ég hef hitt langar verulega til að ferðast til Íslands. Þó eru sumir sem trúa ekki að Ísland sé þjóð og kemur reglulega upp sá misskilningur að við séum frá Írlandi en hér eru margir Írar í námi. “
Hvað er best við að búa í Košice? „Košice er í dag næststærsta borg Slóvakíu en tilheyrði Ungverjalandi áður fyrr og sést það vel í arkítektúrnum. Okkur finnst borgin minna helst á Búdapest,“ svarar Kolbrún. „Fyrst og fremst finnst okkur bara gaman að búa í Košice en hér er gífurlega mikið úrval af veitingastöðum sem og afþreyingu, svo okkur leiðist klárlega ekki þegar við eigum frítíma. Við búum þó aðeins frá miðbænum en afar nálægt háskólasvæðinu og fyrir utan íbúðina okkar er fallegur garður með körfuboltavelli, leikvelli, þrektækjum og hundasvæði. Samgöngur eru líka mjög góðar og hér ganga bæði strætó og sporvagnar næstum allan sólahringinn. Einnig er lestarkerfi í Slóvakíu gott og kemst maður því auðveldlega á milli landshluta eða á milli landa. Svo má ekki gleyma góða veðrinu, en hér er farið að vora og komin sól.“
Í lokin voru Kolbrún og Númi spurð um hvers þau söknuðu helst að heiman, svona fyrir utan fjölskyldu og vini. Númi saknar sundlaugar og saunuklefans heima á Molastöðum á meðan Kolbrún saknar þess að geta ekki gætt sér flatkökum og Kókómjólk.
- - - - - -
Viðtalið við Kolbrúnu og Núma birtist fyrst í Fermingar-Feyki sem kom út 29. mars og dreift var í öll hús á Norðurlandi vestra.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.