Kvennaskólinn fær andlitslyftingu

Kvennaskólinn á Blönduósi hefur fengið andlitslyftingu innandyra þessa síðustu mánuði. Unnið hefur verið að kappi við að endurnýja og endurbæta aðstöðu og umbúnað innan veggja skólans. Sérfræðingar Háskólaseturs á Blönduósi hafa þar skrifstofur ásamt framkvæmdastjóra Textílseturs. Herbergi sem áður voru heimavistarverur ungmeyja hýsa nú sérfræðinga í hafísfræðum og textílfræðum. Hollvinasamtök Kvennaskólans hafa til umráða rými þar sem saga Kvennaskólans verður rakin í máli og myndum og munum skólans komið fyrir.

Í Kvennaskólanum verður einnig aðstaða fyrir nemendur, lista- og fræðamenn. Fyrsti fræðamaðurinn, doktorsneminn Karl Aspelund, dvaldi þar á vegum Textílsetursins fyrri hluta júní mánaðar. Um næstu helgi bætast í hópinn áhugasamir nemendur sem dvelja í fjóra daga á sumarnámskeiðum Textílsetursins. Verða öll rýmis skólans fullnýtt en kennsla mun fara fram í orkeringu, útsaumi, frjálsu hekli og gimbi.

Kennararnir eru hver um sig þekktir í sínu fagi, Björk Ottósdóttir kemur frá Danmörku til að kenna útsaum, monogram, en hún hefur kennt við Skals håndarbejdesskole í Danmörku og margar konur sótt hana þangað heim. Helga Jóna Þórunnardóttir eigandi Nálarinnar og hannyrðakennari mun leiðbeina í orkeringu og verður sú nýbreyttni að einnig verður unnið með grófara efni sem gefur möguleika á að gera blúndur t.d. á peysur.
Eva Hulda Emilsdóttir textílkennari er ein af fáum sem leiðbeina í gerða gimbs sem er gömul aðferð við blúndugerð og nýtist á fjölbreyttan hátt í bæði minni og stærri verk. Edda Lilja Guðmundsdóttir sem hefur getið sér góðs orðs sem afar frumlegur heklhönnuður. Hún er höfundar að verkefnunum 52 húfur á 52 vikum og fleiri áhugaverðum verkefnum og er að opna sýningu í Selasetrinu laugardaginn 26.júní og mun kenna í framhaldinu á námskeiði í frjálsu hekli hjá Textílsetrinu.

Mun Kvennaskólinn iða af lífii þessa námskeiðsdaga, 26. – 29.júní. Í hverju horni verður setið við hannyrðir og handverk. Margt verður skrafað og skeggrætt, um daginn og veginn en ekki síst um sameiginlegt áhugamál allra; hannyrðir og handavinnu. Opið hús verður fyrir almenning á þriðjudaginn frá kl. 15 og gefst þá áhugasömum kostur að skoða afrakstur námskeiðanna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir