Kuldi ríkjandi á næstunni þrátt fyrir aukna birtu sólar :: Veðurklúbbur Dalbæjar

Aðsend mynd.
Aðsend mynd.

Veðurklúbbur Dalbæjar fundaði í gær og spáði að venju í veðrið. Mættir voru, Jón Garðarsson, Haukur Haraldsson, Bergur Þór Jónsson, Hörður Kristgeirsson, Magnús Guðlaugsson, Ragnhildur Von Weisshappel og Kristján Loftur Jónsson.

Í fundargerð kemur fram að fundurinn hafi hafist á því að rifjað var upp og sagt frá hittingi veðurvita í nágrenni Dalvíkur í síðustu viku. Þar fór hluti Veðurklúbbsfélaga og hitti veðurglögga menn á stór Dalvíkursvæðinu til að fá hjá þeim frekari upplýsingar um hvar og hvernig þeir sæju fyrir komandi veður í sínu nágrenni. Sagt verður meira frá þeirri útrás síðar.

„En samkvæmt venju þá kíktum við í upplýsingar um uppkomu núverandi tungls til að vita hvort það myndi mögulega hafa mikil áhrif á veður næsta mánuðinn. En þar sem lægða rennur hérna í kringum okkur eru mjög þaulsetnar þá sýnist okkur að aðdráttarafl tunglsins nái ekki yfirhöndinni næsta mánuðinn frekar en nokkra undanfarna.

Þá litum við til draumfara og tilfinninga félaga og út úr þeirri yfirferð kom sú niðurstaða að mars muni verða snjóamánuðurinn hérna á stór Dalvíkursvæðinu og kuldinn frekar ríkjandi á næstunni þrátt fyrir að birtu sólar njóti eitthvað meira smátt og smátt. Þetta gleður vonandi skíðafólk, hvort sem það gengur fyrir lýsinu eða öðrum aflgjöfum,“ segir í fundargerðinni. Þar kemur einnig fram að borist hafi fyrirspurn í skilaboðum, líklega á Facebook, hvort klúbburinn gæti ekki farið að gefa út veðurspá fyrir höfuðborgarsvæðið og nágrenni. En Veðurklúbburinn vill ekki grípa fram fyrir hendurnar á veðurvitum þeirra slóða og hvetur íbúa þess svæðis frekar til að stofna sína veðurklúbba og aðstoða þannig veðurspáþyrsta þess svæðis með nærtækar spár.

Svo er niðurlag fundargerðarinnar í bundnu máli líkt og ætíð.

Mars mun sumum auka munað
margur gleðjist gumar þá.
Því skíði brúkuð, brekkur brunað
bætist geð og hýrnar brá.
Höf. Bjór

Mars
Hér er ekkert um að vera
aldrei vetrar sólin skín.
Ég nenni ekki neitt að gera
nema drekka brennivín.
Höf. Fía á Sandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir