KS færði Stólunum veglegan styrk á uppskeruhátíð – Dagur Þór segir reynt að halda svipuðu liði áfram
Eins og flestir vita lauk körfuknattleikstímabilinu síðastliðið miðvikudagskvöld þegar Tindastóll lét í minni pokann fyrir Völsurum í oddaleik í úrslitum Subway deildarinnar. Haldin var uppskeruhátíð sl. föstudagskvöld í íþróttahúsinu á Sauðárkróki og slegið upp balli í kjölfarið. Í tilefni velgengni Tindastóls í körfunni færðu fulltrúar Kaupfélags Skagfirðinga deildinni eina milljón króna að gjöf.
„Þetta var hefðbundin athöfn, matur og veitingar verðlauna og viðurkenninga meistaraflokkanna,“ segir Dagur Þór Baldvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar. Hann viðurkennir að vera þreyttur en ánægður eftir mikla rússíbanareið karlaliðsins í vetur en vissulega verið gaman seinustu tvo mánuði.
„Þetta var krefjandi og erfitt á tímabili en svo náðum við þessu á skrið. Stelpurnar stóðu sig líka mjög vel, unnu marga leiki og öll lið nema tvö þau efstu,“ segir Dagur og var Síkið sem fyrr gott vígi þar sem flestir leikirnir unnust enda fjöldi stuðningsmanna að mæta. Breytingar verða hjá stelpunum á næsta tímabili þar sem Jan Bezica, þjálfari, er á förum. Dagur segir að unnið sé að því að finna annan þjálfara í hans stað enda verði ekki slegið slöku við með kvennaboltann.
Karlamegin segir Dagur áhuga vera á því að halda áfram með það sem vel gekk seinustu tvo mánuði og standa yfir viðræðum við menn og þjálfara. „Við viljum halda svipuðu liði og þjálfarateymi og var hér í restina,“ segir hann en áréttar að ekki sé gott að segja nú hvort náist samningar við erlendu leikmennina: „Það er bara verið að vinna þetta. Við klárum þetta fljótlega,“ segir hann og býst fastlega við því að þjálfari ársins verði áfram í herbúðum Stólanna.
Eins og fram kemur í inngangi fréttarinnar afhentu fulltrúar Kaupfélags Skagfirðinga deildinni eina milljón króna að gjöf í tilefni af velgengni Tindastóls í úrslitakeppni Subway deildar. Dagur er þakklátur fyrir velvild félagsins og segir gjöfina koma sér vel í rekstri deildarinnar. Þá hafi líka komið sér vel hve langt liðið náði í úrslitakeppninni og sá mikli áhugi sem stuðningsfólk sýndi með því að mæta á pallana. Innkoman hafi í raun lagað rekstrarárið. „Fólk kom alls staðar að til að upplifa þessa stemningu, þetta var eitthvað einstakt dæmi. Þetta er búið að vera upp og niður í vetur, en við höfum aldrei komist eins nærri því að landa titli og nú.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.