KR krækti í stig á lokamínútunum í Lengjubikarnum

Stólastúlkur peppa sig upp fyrir leikinn í dag. MYNDIR: SIGURÐUR INGI
Stólastúlkur peppa sig upp fyrir leikinn í dag. MYNDIR: SIGURÐUR INGI

Spilað var í A deild kvenna, riðli 1, í Lengjubikarnum í knattspyrnu á Króknum í dag. Völlurinn var iðagrænn og fallegur en óhætt að segja að veðrið hafi ekki verið upp á marga fiska framan af leik; hvassviðri og hríð. Það er hins vegar gaman að spila fótbolta og ekki amalegt að mæta Vesturbæjarstórveldinu KR í fyrsta heimaleik ársins. Það fór svo á endanum að liðin skiptu stigunum á milli sín en leiknum lauk með 1–1 jafntefli.

Lið Tindastóls er komið með allar sínar þrjár bandarísku stúlkur í hús og Amber og Hannah Cade voru klárar í slaginn en Murr meiddist í síðasta leik og verður höfð í bómull þangað til óhætt er að láta hana spreyta sig á ný. Auk þess voru Hugrún Páls og fyrirliðinn Bryndís Rut fjarri góðu gamni svo einhverjar séu nefndar en ánægjulegt var að sjá að Húnvetningurinn Hrafnhildur Björns var mætt á völlinn á ný en hún sleit krossbönd sumarið 2020 og missti af Pepsi Max sumrinu með Stólastúlkum. Sem var synd því Hrafnhildur er góð í fótbolta og það var einmitt hún sem gerði fyrsta mark leiksins á 35. mínútu og staðan 1-0 í hálfleik.

Heldur lagaðist veðrið í síðari hálfleik, dró úr bæði snjókomu og vindi, en gestunum gekk illa að skapa sér færi. Í kjölfarið á því að Lara Margrét, úr Vatnsdalnum, fékk að líta rauða spjaldið á 78. mínútu þyngdist þó pressa gestanna og þær uppskáru jöfnunarmark á 89. mínútu þegar Ólöf Freyja Þorvaldsdóttir kom boltanum framhjá Amber í markinu. Í uppbótartíma sótti lið KR hart að marki Tindastóls en Amber ætlaði ekkert að fá fleiri mörk á sig í dag svo þar við sat.

Lið Tindastóls tekur þátt í Lengjudeild kvenna í sumar en lið KR fór upp í Bestu-deild kvenna sl. haust eftir að hafa heimsótt Lengjudeildina. Næsti leikur Stólastúlkna í Lengjubikarnum [ekki rugla saman keppnum] fer fram nk. laugardag þegar stelpurnar mæta liði ÍBV í Akraneshöllinni. Síðan spila þær við Selfoss á JÁVERK-vellinum 12. mars og loks kemur Stjarnan í heimsókn á Sauðárkróksvöll 19. mars. Þetta var annar leikur Tindastóls í Lengjubikarnum en stelpurnar lágu fyrir sterku liði Breiðabliks í fyrstu umferð, 5–0.

Sigurður Ingi Pálsson lét myndavélina draga sig á völlinn í vetrarveðrinu og gaf Feyki góðfúslegt leyfi til að birta nokkrar fínar myndir frá leiknum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir