Kormákur/Hvöt féll á síðustu hindruninni
Lið Kormáks/Hvatar mátti bíta í það súra epli að lúta í ískalt grasið á Þorlákshafnarvelli í gærkvöldi í síðari viðureign sinni við lið Ægis í fjögurra liða úrslitum 4. deildar. Liðin gerðu 1-1 jafntefli á Blönduósi á laugardaginn en heimamenn í Þorlákshöfn byrjuðu leikinn frábærlega í gær og voru komnir með K/H upp að vegg eftir átta mínútna leik. Það fór svo að Ægir hafði betur, 3-0, og draumur Húnvetninga um sæti í 3. deildinni því úti að sinni.
Goran Potkozarac kom Ægi yfir eftir tveggja mínútna leik og Pálmi Þór Ásbergsson bætti öðru marki við á 8. mínútu. Lið Kormáks/Hvatar hefur oft barist til sigurs þrátt fyrir brekku í sumar en að þessu sinni reyndist vörn mótherjanna of sterk og lokaði á sóknaraðgerðir norðanmanna. Staðan hélst eins þangað til á 88. mínútu að Aco Pandurevic gulltryggði sigur heimamanna með marki úr vítaspyrnu.
Ægir Þorlákshöfn endurheimti þar með sæti sitt í 3. deild og það er Elliði sem fylgir þeim upp um deild eftir sannfærandi 4-1 sigur á liði Hvíta riddarans.
Í viðtali við Óskar Smára Haraldsson, leikmann Kormáks/Hvatar, á Fótbolti.net, sagði svekktur kappinn m.a. að fyrstu tíu mínútur leiksins hafi farið með leikinn og möguelikar K/H hafi í raun legið í fyrri leiknum. „Við getum talað um það hvað við hefðum getað gert betur og allt það, en tveir leikir og 180 mínútur og við töpuðum 4-1 og það er lítið hægt að segja eftir það.“
Að sögn Bjarka Más Árnasonar, þjálfara Kormáks/Hvatar, voru úrslitin sanngjörn. „Við vorum bara ekki nógu góðir í fyrri hálfleik. Við gerðum betur í seinni hálfleik og pressuðum þá og fórum að berjast eins og við gátum en við sköpuðum lítið.“ Lið K/H verður því áfram í baráttunni í 4. deildinni næsta sumar en leikmenn verða örugglega æstir í að gera þá enn betur en nú.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.